Tilnefning til safnaverðlaunanna 2020

Fyssa eftir Rúrí frá 1995. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Listasafn Reykjavíkur er eitt þeirra fimm safna sem tilnefnd eru til safnaverðlaunanna 2020 – fyrir verkefnið 2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur. Í umsögn valnefndar segir að verkefnið hafi verið fjölbreytt og það vakið athygli á listinni í daglegu umhverfi utan veggja safnsins. Verkefnið hafi náð til áþreifanlegra sem og óáþreifanlegra verka. Miðlunin hafi verið bæði hefðbundin og nýstárleg þar sem samfélagsmiðlar voru nýttir og tækninýjungar virkjaðar. Enn fremur segir að verkefnið sé til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Tilnefnd eru einnig verkefnin Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi, sýning Sjóminjasafnsins Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár, Vatnið í náttúru Íslands – ný grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands og svo varðveislu- og rannsóknarmiðstöð Þjóðminjasafns Íslands ásamt Handbók um varðveislu safnskostsins. 

Að safnaverðlaununum standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS). Verðlaunin eru veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum. 

2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur
Með verkefninu 2019 – ár listar í almannarými beindi Listasafn Reykjavíkur sjónum að gildi listar fyrir mannlíf og ásýnd umhverfisins og þar með starfsemi safnsins utan veggja þess, en alls hefur safnið umsjón með 182 útilistaverkum. Verkefnið snýr að mörgum sviðum safnastarfs svo sem forvörslu og viðhaldi, sýningum og viðburðum, tækniframförum og orðræðu um list í almannarými. Ásmundarsafn, eitt þriggja húsa Listasafns Reykjavíkur er sterklega tengt útilistaverkum þar sem Ásmundur Sveinsson er höfundur höggmynda sem standa á yfir 20 áberandi stöðum í borgarlandslaginu og víða á landsbyggðinni.

Verkefnið hófst með sýningu á Kjarvalsstöðum á innsendum tillögum að útilistaverki í Vogabyggð þar sem vinningstillagan, Pálmatré eftir listamanninn Karen Sanders var kynnt. Vikulega var útilistaverk valið til kynningar á samfélagsmiðlum safnsins. Snemma árs var nýtt smáforrit (app) tekið í notkun sem miðlar upplýsingum um útilistaverk í umsjá Listasafns Reykjavíkur. Hægt er að hlaða því niður í síma og sækja hljóðleiðsagnir, gönguleiðir sem hægt er að njóta hvort heldur gangandi eða hjólandi og einnig er boðið upp á leiki. Efnt var til sýningaraðar í Ásmundarsafni þar sem fimm listamönnum, sem eiga það sameiginlegt að eiga listaverk í almenningsrými, var boðið að sýna samhliða sýningu á listaverkum Ásmundar. Um vorið var efnt til þriggja málþinga; Hvað er almannarými?, Deilur um list í almannarými og Þróun og framtíð listar í almannarými. Í byrjun sumars var verkið Tákn eftir Steinunni Þórarinsdóttur afhjúpað á þaki Arnarhvols þar sem það mun standa tímabundið. Í september var sýningin Haustlaukar opnuð þar sem verk fimm myndlistarmanna birtust á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík. Í stað efnislegra skúlptúra, minnisvarða eða varanlegra umhverfisverka var sjónum beint að verkum sem eru unnin í óáþreifanlegt efni og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Viðfangsefnin tengdust málefnum líðandi stundar svo sem sítengingu, núvitund, umhverfismálum, valdi, eignarhaldi og mörkum einka- og almannarýmis. Í nóvember var síðan efnt til ráðstefnu í samvinnu við Hafnarborg og Rannsóknarsetur í safnafræðum undir yfirskriftinni List í almannarými: þýðing og uppspretta. Yfir árið voru mörg útilistaverk yfirfarin, forvarin og lagfærð. Þar má nefna Fyssu eftir Rúrí sem var endurvígð eftir langt hlé, Friðarsúlu Yoko Ono, Íslandsvita Parmiggani og Hvítu fiðrildin eftir Ásmund Sveinsson.

Mat valnefndar er að 2019 – Ár listar i almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur hafi verið fjölbreytt og það vakti athygli á listinni í daglegu umhverfi utan veggja safnsins. Verkefnið náði til áþreifanlegra sem og óáþreifanlegra verka. Miðlunin var bæði hefðbundin og nýstárleg þar sem samfélagsmiðlar voru nýttir og tækninýjungar virkjaðar. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.