Tilkynnt um úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk í Vogabyggð

Tilkynnt um úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk í Vogabyggð

Þriðjudag, 29. janúar kl. 14.00 verður kynnt verðlaunatillaga samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, flytur ávarp en niðurstöðu kynnir formaður dómnefndar, Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi. Jafnframt verður opnuð sýning á öllum innsendum tillögum og stendur hún til 7. febrúar.

Samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð er ein viðamesta samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík. 

Átta listamenn voru valdir til þátttöku í samkeppninni, þar af einn listamannahópur. Það eru listamannahópurinn A Kassen, Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir og Tomás Saraceno. 

Við skipulagningu Vogabyggðar hefur verið haft að leiðarljósi að myndlist verði áberandi hluti ásýndar hverfisins og hluti innviða þess, þannig eru lóðaeigendur þátttakendur í því að fjármagna listaverkin. Samkeppnin er einstök hvað það varðar að hugmyndir um listaverk koma fram snemma á mótunarferli svæðisins.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Vogabyggð og stendur að baki samkeppninni.