Þúsund sítrustré á Þingvöllum

Michael Joaquin Grey á Þingvöllum ásamt krökkum úr Landakotsskóla

Það voru kátir krakkar í Landakotsskóla sem tóku þátt í gjörningi listamannsins Michael Joaquin Grey á Þingvöllum á föstudaginn. Gjörningurinn sem nefnist Þúsund sítrustré á Þingvöllum fólst í að listamaðurinn fór á Þingvelli og afhenti börnunum mandarínutré sem þau báru til skiptis þar til komið var á ákveðinn stað við Almannagjá. Þar fengu þau svo að ákveða hvort þau vildu gróðursetja tréð eða taka það með sér heim. Eftir nokkra umhugsun og pælingar ákváðu krakkarnir að taka tréð með sér heim. Gjörningurinn hefur ýmsar tilvísanir m.a. í það hvernig hlutirnir geta gjörbreyst og þannig gæti mandarínutré mögulega vaxið á Þingvöllum í framtíðinni. Þarna er  vísað í örar breytingar á t.d. veðurfari, fólksflutningum og náttúrulífi í heiminum í dag. Gjörningurinn er í tengslum við sýninguna Aftur í sandkassann sem opnar í kvöld föstudaginn 15. janúar kl. 20.

Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.