Þrír listamenn bætast við í D-sal 2021

Claire Paugam, Baldvin Einarsson og Ásgerður Birna Björnsdóttir

Á næsta ári verða alls fimm sýningar í sýningaröðinni í D-sal, Hafnarhúsi. Sýningar Klængs Gunnarssonar og Auðar Lóu Guðnadóttur sem vera áttu í ár flytjast fram yfir áramót vegna breyttrar sýningadagskrár í kjölfar farsóttar. Síðan bætast við þrír listamenn sem valdir hafa verið úr hópi 100 innsendra tillagna sem bárust safninu fyrr á þessu ári, en þau eru Claire Paugam, Baldvin Einarsson og Ásgerður Birna Björnsdóttir.

Í vetur var kallað eftir tillögum að sýningum í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur sem kennd er við D-sal Hafnarhúss. Frá árinu 2007 hafa yfir 40 listamenn sýnt í þessu samhengi. Alls lýstu 100 listamenn yfir áhuga á því að vinna með safninu að sýningu í D-sal. Tillögurnar endurspegluðu þá miklu grósku sem ríkir í íslenskum myndlistarheimi.

Safnið hefur kynnt þær forsendur fyrir vali á listamanönnum til þátttöku í þessu verkefni að þeir hafi þegar sýnt áhugaverð verk og verið áberandi þátttakendur í íslenskri myndlistarsenu en að sýning í D-sal sé þeirra fyrsta einkasýning í opinberu safni.

Sérfræðingar Listasafns Reykjavíkur standa að vali sýnenda og að þessu sinni tók sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir þátt í vinnu valnefndarinnar sem utanaðkomandi gestur en hún var fyrst til að sýna í D-sal árið 2007. Nú þegar hafa verk 41 listamanns verið kynnt í sýningaröðinni og hafa þeir flestir haldið áfram að móta íslenskt listalíf með eftirtektarverðum hætti.

Claire Paugam er með BFA gráðu frá Beaux-Arts de Nantes Métropole og MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hefur hún ýmist sýnt á Íslandi og í Frakklandi. Hún er stjórnarmeðlimur Nýlistasafnsins og fékk hvatningarverðlaun íslensku Myndlistarverðlaunanna árið 2020. 

Baldvin Einarsson útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA gráðu í sömu grein frá Royal Academy of Arts í Antwerpen í Belgíu árið 2014. Hann hefur síðan þá sýnt víðsvegar um Evrópu og verið með vinnustofuaðstöðu á Spáni.

Ásgerður Birna Björnsdóttir lærði við Myndlistarskóla Reykjavíkur og nam í kjölfarið við Gerrit Rietveld Akademínua í Amsterdam þaðm sem hún útskrifaðist með BFA gráðu árið 2016. Hún hefur síðan þá hún unnið að ýmsum uppsetningum og gjörningum, helst þá á Íslandi eða Hollandi. Hún er ein af stofnendum Laumulistasamsteypunar ásamt Helenu Aðalsteinsdóttur. Einnig er hún meðstofnandi at7 listarýmis.