Þriðja hrina hefst fimmtudaginn 9. mars

Libiu & Ólafs: Allir eru að gera það sem þeir geta (stilla), 2008.

Þriðja hrina sýningarinnar Hrina – fjórar hrinur vídeóverka hefst fimmtudaginn 9. mars. Þar verða sýnd sjö verk í flokki skráningar. Verkin eru eftir Hlyn Helgason, Ósk Vilhjálmsdóttur, Ráðhildi Ingadóttur, Hlyn Hallsson, Finn Arnar Arnarson, Libiu & Ólaf og Jeanette Castioni.

Verk Hlyns Helgasonar heitir Frá Ártúnsholti vestur Miklubraut að Granda frá árinu 1999. Það byggist á bílferð um höfuðborgina. Verk Óskar nefnist Pumpa og er frá árinu 2012. Verkið sýnir tvær ólíkar athafnir á tveimur skjám. Verk Ráðhildar, Hale Bobb er frá árinu 1997. það er skrásetning á því þegar gestir á sýningu Ráðhildar mátuðu föt með silkiþrykki. Verk Hlyns Hallssonar nefnist Mikilvægt og er frá árinu 1999. Þar bauð Hlynur fólki sem talar mismunandi tungumál að tjá sig á móðurmáli sínu um mikilvæg málefni. Verk Finns Arnars, Náttúra I og Náttúra II frá árinu 2003 eru tvö vídeó sem sýna mismunandi sjónarhorn á náttúruna, ytra landslag og innri vitund. Verk Libiu & Ólafs, Allir eru að gera það sem þeir geta frá árinu 2008 sýnir þegar sýningarsal í safninu var breytt í kynningarsvæði til þess að kanna tengsl safnsins við almenningsrýmið. Að endingu er það verk Jeanette Castioni, The Entroy of Landscape frá árinu 2008 þar sem listamaðurinn skoðar tengsl milli almættisins og mannsins.