Tendrun Friðarsúlunnar 9. október

Friðarsúlan í Viðey verður tendruð með fallegri athöfn á fæðingardegi John Lennons þann 9. október næstkomandi klukkan 20.00 en hann hefði orðið 75 ára þennan dag. Dagskráin hefst kl. 17.30 og stendur til kl. 21.30.

Siglingar og strætó

Yoko Ono býður upp á fría siglingu yfir Sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá klukkan 17.30 til 19.20. Fríar strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka og til baka. Fyrsti vagn fer klukkan 17.15 frá Hlemmi og síðan á tuttugu mínútna fresti til kl. 19.00. Að athöfn lokinni siglir fyrsta ferja frá Viðey klukkan 21.00. Hægt verður að taka strætó frá frá Skarfabakka að Hlemmi.

Dagskrá

Dagskráin hefst í Viðeyjarnausti klukkan 17.30 með fjölskyldusmiðju á vegum Listasafns Reykjavíkur fyrir stóra og smáa. Klukkan 18.00 verður leiðsögn um byggð og sögu í Viðey. Klukkan 18.30 hefst tónlistarflutningur Ólafar Arnalds. Karlakór Reykjavíkur syngur við Friðarsúluna kl. 19.45. Friðarsúlan verður tendruð kl. 20.00. Hljómsveiting Friends 4 Ever stígur svo á stokk og heldur uppi stemningu frá klukkan 20.30 til 21.30. Kynnir kvöldsins er Felix Bergsson. Veitingasala verður í tjaldi fyrir utan Viðeyjarnaust og Viðeyjarstofu. Eftir tendrunina verður hægt að skoða listsýningu Kyoko Ono, dóttur Yoko Ono, inni í Viðeyjarstofu.

Fólk er hvatt til að klæða sig vel. 

Friðarsúlan

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey til að heiðra minningu John Lennon. Friðarsúlan er árlega tendruð á fæðingardegi Lennon 9. október og lýsir til 8. desember sem er dánardagur Lennon. Listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennon fyrir heimsfriði. Friðarsúlan, tekur á sig form óskabrunns en á hana eru grafin orðin „hugsa sér frið“ á 24 tungumálum en enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon. Yoko Ono býður öllum gestum tendrunarinnar að skrifa óskir og hengja á óskatré í Viðeyjarstofu og Viðeyjarnausti og eftir tendrun í Listasafni Reykjavíkur og á Höfuðborgarstofu. Borist hafa fleiri en milljón óskir um frið í tengslum við IMAGINE PEACE og Friðarsúluna víðsvegar að úr heiminum.