Sýningaropnun: Ytri höfnin – Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands

Áttatíu nemendur á BA stigi í myndlistardeild og hönnunar- og arkitektúrdeild sýna verk sín í fjórum af sex sýningarsölum Hafnarhússins. Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. apríl kl. 14.

Verkin á sýningunni endurspegla nám, rannsóknir og listsköpun þriggja ára. Ytri höfnin teygir sig um ganga og sali hússins. Sýningin heitir eftir samnefndri ljóðabók Braga Ólafssonar frá árinu 1993. Ytri höfn er óræður staður úti fyrir landi þar sem skip kasta akkerum tímabundið á ferðalagi sínu um heiminn. Nemendur yfirtaka Hafnarhúsið með svipuðum hætti, staldra þar við í stuttan tíma og halda síðan hvert í sína áttina.