Sýningaropnun við Arnarhvol Steinunn Þórarinsdóttir: Tákn

Sýningaropnun við Arnarhvol Steinunn Þórarinsdóttir: Tákn

Föstudag 31. maí kl. 12.30.

Tákn er listaverk sem sett hefur verið upp á þaki Arnarhvols við Ingólfsstræti í Reykjavík í tilefni af ári listar í almannarými. Uppsetningin hlaut menningarstyrk Borgarsjóðs og er jafnframt styrkt af Vélsmiðjunni Héðni og BM Vallá og unnin í góðu samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem hefur aðsetur í húsinu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpar samkomuna og Steinunn Þórarinsdóttir segir einnig frá verkinu, en það var fyrst sýnt í Dresden í Þýskalandi árið 2017.

Steinunn Þórarinsdóttir hefur unnið fjölda verka í almannarými hérlendis sem erlendis og það hefur verið stór hluti af hennar listrænu starfsemi alla tíð. Um er að ræða 11 fígúrur úr steyptu áli sem Steinunn vann á árunum 2015-2017 – upphaflega fyrir sögusafn þýska hersins í Dresden.

Tákn var sett upp á safnabygginguna í Dresden sem áður hýsti vopnabúr þýska hersins. Þar höfðu staðið fígúrur í anda hernaðar en þeim var stolið í stríðinu árið 1943 og hafa aldrei fundist þrátt fyrir töluverða leit.
 
Steinunn Þórarinsdóttir hefur verið starfandi myndlistarmaður í 40 ár.  Hún hefur unnið að fígúratífum skúlptúr frá byrjun ferils síns. Fígúrur hennar eru kynlaus tákn mennskunnar.  Verk Steinunnar hafa frá upphafi tengst íslenskri náttúru sterkum böndum.  Samtal mannsins við náttúruna, umhverfi sitt og samfélagið er leiðarstef í list hennar. Steinunn hefur gert fjöldann allan af verkum sem eru áberandi í borgarlandinu. 

Steinunn hlaut BA gráðu í myndlist frá Háskólanum í Portsmouth í Bretlandi. Hún stundaði framhaldsnám í Listaakademíunni í Bologna á Ítalíu. Steinunn hefur fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar, m.a. sæmdi forseti Íslands hana riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu myndlistar hérlendis og erlendis árið 2009.

Steinunn starfar með Listhúsinu Tveir Hrafnar í Reykjavík, Osborne Samuel Gallery í London, Galerie Christoffer Egelund í Kaupmannahöfn og Scott White Contemporary í Bandaríkjunum.