Sýningaropnun − Ingólfur Arnarsson: Jarðhæð

Sýningaropnun − Ingólfur Arnarsson: Jarðhæð

Einkasýning í Hafnarhúsi

Sýning á nýjum verkum eftir myndlistarmanninn Ingólf Arnarsson verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardag 3. nóvember kl. 16.00. Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, opnar sýninguna.

Ingólfur hefur verið áhrifamikill í íslensku listalífi allt frá því að hann lauk listnámi í Hollandi snemma á níunda áratugnum. Teikning hefur ætíð skipað veigamikinn sess í listsköpun hans en teikningar Ingólfs einkennast af fíngerðum línum, nákvæmni og tíma. Hann hefur jafnframt unnið verk á steinsteypu þar sem þyngd iðnaðarframleiddra eininga myndar undirlag næmra litatóna.

Á sýningunni Jarðhæð í A- sal Hafnarhúss verða ný verk, nákvæmlega útfærð fyrir rými salarins. Segja má að verk Ingólfs séu aldrei einangruð fyrirbæri heldur ætíð hluti af úthugsaðri innsetningu og sýningarrými.

Frá upphafi myndlistarferils síns hefur Ingólfur verið virkur skipuleggjandi sýninga á verkum íslenskra og erlendra listamanna bæði hér heima og erlendis. Hann var jafnframt einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7, sem var tilraunakenndur sýningastaður í Reykjavík seint á áttunda áratugnum, og virkur í starfi sýningarsalarins Önnur hæð sem starfræktur var í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn. Meðfram störfum að eigin myndlist hefur Ingólfur sinnt myndlistarkennslu og var deildarstjóri fjöltæknideildar Myndlista- og handíðaskólans 1983 – 1993 og prófessor við Listaháskóla Íslands 2000 – 2007.

Ingólfur Arnarsson (f. 1956) lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og hélt þá til framhaldsnáms við Jan van Eyck listaháskólann í Hollandi 1979 – 1981. Á rúmlega 30 ára ferli hafa verið haldnar sýningar á verkum Ingólfs bæði hér heima og erlendis, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg og í Safni, auk þess sem hann hefur reglulega sýnt í Nýlistasafninu. Erlendis hefur Ingólfur sýnt í listamiðstöðinni Chinati Foundation í Texas í Bandaríkjunum – þar sem hann var gestalistamaður og einnig hefur Ingólfur átt verk á sýningum í Center for Contemporary Non-Objective Art í Brussel og í Drawing Center í New York.

Sunnudaginn 11. nóvember kl. 15.00 fjallar listamaðurinn um sýninguna.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, er sýningarstjóri.