Sýningaropnun í Hafnarhúsi – Ilmur Stefánsdóttir: Panik

Einkasýning Ilmar Stefánsdóttur, Panik, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, á Safnanótt, föstudaginn 3. febrúar kl. 20.00. 

Unnið er hörðum höndum að uppsetningu sýningar myndlistarkonunnar Ilmar Stefánsdóttur í A-sal Hafnarhússins. Salurinn minnir á byggingastað eða verksmiðju - sjö tonn af salti, burðarstoðir, skjáir og stór rör. Sýningin er ein heildarinnsetning sem tengd er saman með 12 myndbandsverkum eftir Ilmi.

Verk Ilmar á sýningunni eiga það sameiginlegt að sýna konu sem hamast við eitthvað sem ekki hefur augljósan tilgang. Konan er óstöðvandi - hleypur, hoppar og hjólar án þess að blása úr nös. Þessi stöðugi hamagangur virkar jafnvel óþægilegur og umhverfið bendir til þess að ekki sé allt með felldu í salnum. Hrynur salurinn ef konan stoppar? Hrynur hann ef hún heldur áfram? Ættu áhorfendur að taka þátt í hreyfingunni eða borgar sig að hafa hægt um sig?

Ilmur Stefánsdóttir (f. 1969) vinnur jöfnum höndum við myndlist og leikmyndahönnun. Hún lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og framhaldsnámi í myndlist við Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Ilmur hefur hannað leikmyndir og búninga fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og víðar. Hún er einn stofnenda leikhópsins CommonNonsense.

Sýningaropnunin er hápunktur Safnanætur í Listasafni Reykjavíkur. Sýningarstjóri er Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri. Þórgnýr Thoroddsen varaformaður Menningar- og ferðamálaráðs opnar sýninguna. Klukkustund eftir opnun, eða kl. 21.00, fremur Ilmur gjörning í fjölnotasal Hafnarhússins við undirleik dúettsins Cyber.

Listasafn Reykjavíkur býður gestum upp á fjölbreytta viðburði á Safnanótt, föstudaginn 3. febrúar frá kl. 18-23. Í boði verða listasmiðjur, leiðsagnir og tónleikar svo eitthvað sé nefnt. Viðburðirnir fara fram í Hafnarhúsi við Tryggvagötu, á Kjarvalsstöðum við Flókagötu og í Ásmundarsafni við Sigtún. Nánari upplýsingar hér.