Sýningaropnun í Ásmundarsafni

Ljósmynd: Bragi Guðmundsson

Laugardaginn 16. apríl kl. 16 verður opnuð í Ásmundarsafni sýningin Uppbrot. Þar rýnir myndlistarmaðurinn Elín Hansdóttir í verk höggmyndalistamannsins Ásmundar Sveinssonar, glímir við arfleifð hans og leitar áður ókannaðra flata.

Á sýningunni verða verk eftir Ásmund úr safneign Listasafns Reykjavíkur og ný verk eftir Elínu. Elín veltir fyrir sér vinnu listamannsins og hlutskipti hans – sem oft hefur verið að brjóta upp gömul og gildandi viðhorf. Ásmundur talaði um að fá fólk til að „vakna til meðvitundar um að það er ekki skynlausar skepnur“ og Elín segir listina eiga að „kippa undan þér fótunum og fá þig til að endurmeta fastmótaðar hugmyndir þínar.“

Sýningarstjóri er Dorothée Kirch.