Sýningaropnun: Hringur, ferhyrningur og lína

Eyborg Guðmundsdóttir: Partition I, 1966.

Á Safnanótt, föstudag 8. febrúar kl. 17.00 verður opnuð sýning á verkum myndlistarmannsins Eyborgar Guðmundsdóttur (1924-1977) í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjórar eru Heba Helgadóttir, listfræðinemi og Ingibjörg Sigurjónsdóttir myndlistarmaður.
 
Sýningin nefnist Hringur, ferhyrningur og lína sem er tilvitnun í Eyborgu sjálfa þegar hún lýsir frumformum geómetrískrar listar. Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur og listfræðingur, ávarpar gesti við opnun sýningarinnar. Kl. 18.00 leikur Tækifæristríóið lifandi djass.

Eyborg Guðmundsdóttir var afkastamikill myndlistarmaður þrátt fyrir stuttan feril. Hún vann að myndlist og hönnun í um 16 ár og eftir hana liggja á annað hundrað listaverka. Eyborg var sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Verk hennar byggja á fyrirmyndum geómetrískrar abstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við „op-list". Eyborg umgekkst listamenn í Reykjavík og París og lærði af þeim. Helstu leiðbeinendur hennar voru þýsk/svissneski listamaðurinn Dieter Roth – sem hún fundaði reglulega með á Íslandi – og í París naut hún leiðsagnar listamanna eins og Georges Folmer og Victors Vasarely – sem nefndur er „afi“ op-listarinnar (e. optical). Í op-listinni er áhersla lögð á samband áhorfandans og listaverksins og gerð tilraun til að breyta skynjun með framsetningu lita, forma og ljóss. 

Á árunum 1963-67 tók Eyborg þátt í samsýningum í París. Hún hélt þrjár einkasýningar á Íslandi, í Þjóðminjasafninu 1965, á Mokka 1966 og í Norræna húsinu árið 1975 en það var hennar síðasta sýning. Margir þekkja eflaust verk Eyborgar sem hangir í glugganum á Mokka á Skólavörðustíg. Auk þess að mála hannaði Eyborg bókarkápur, sýningarskrár, blaðaforsíður og forkunnarfagurt stigahandrið á kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum við Túngötu sem hún lauk við árið 1966. 

Sýningin á Kjarvalsstöðum er sett upp í lauslegri tímaröð. Á sýningunni eru um eitt hundrað verk sýnd. Verkin samanstanda af málverkum, plexiglermyndum, klippimyndum, lágmyndum og hönnun. Verkin byggja á geómetrísku abstrakti og op-list, og hafa sýningarstjórarnir valið þau af kostgæfni. Verkin eru flest í einkaeigu og gefst því einstakt tækifæri til þess að sjá þau á sýningunni.
 
Sýningarstjórar eru tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Heba (f. 1961) hefur lagt stund á nám í listfræði við Háskóla Íslands og rannsakað verk Eyborgar fyrir BA ritgerð sína. Ingibjörg (f.1985) lauk BA gráðu frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Ingibjörg er ein af aðstandendum Kling og Bang gallerís.