Sýningaropnun: Hólmlendan eftir Richard Mosse

Hólmlendan í Hafnarhúsi

Írski listamaðurinn Richard Mosse verður viðstaddur opnun á sýningunni Hólmlendan (The Enclave) í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi við Tryggvagötu föstudagskvöldið 30. september kl. 20. Ennfremur situr Mosse fyrir svörum um verkið ásamt samstarfsmönnum sínum kl. 21 þetta sama kvöld.

Hólmlendan er viðamikið 40 mínútna langt myndbandsverk sett upp á sex risaskjám. Auk myndbandsverkanna verða sýndar ljósmyndir. Myndirnar eru teknar í austurhluta Kongó með innrauðri filmu sem breytir grænum lit í skærbleikan. Myndirnar eru bæði magnþrungnar og óraunverulegar og sýna stríðshörmungarnar í landinu. Grunnurinn að verkinu er hugmyndin um að ofgnótt ímynda frá stríðshrjáðum svæðum hafi gert okkur ónæm fyrir stríðshörmungum.

Mosse og samstarfsmenn hans, kvikmyndatökumaðurinn Trevor Tweeten, tónskáldið Ben Frost og aðstoðarmaður þeirra John Holten sitja fyrir svörum í panel og gefst gestum kostur á að spyrja þá út í ferlið. Hólmlendan var fyrst sýnd á Feneyjartvíæringnum árið 2013 þar sem Richard Mosse var fulltrúi Írlands. Mosse er fæddur árið 1980 og býr og starfar í New York.