Sýningaropnun – Guðný Rósa Ingimarsdóttir: opus-oups

Sýningaropnun – Guðný Rósa Ingimarsdóttir: opus-oups

Yfirlitssýning á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur, opus-oups, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, laugardag 2. október kl. 14.00. Verkin á sýningunni spanna rúmlega 20 ára feril Guðnýjar en sýningin er hluti af sýningaröð Listasafns Reykjavíkur sem hefur það að markmiði að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.

Verk Guðnýjar Rósu bera með sér ríka nánd, jafnt í efnisvali sem vinnuaðferðum. Þau eru dæmi um listsköpun þar sem persóna og hönd listamannsins eru nálæg í hverju einasta verki, hverri einustu línu, saumspori, kroppuðu yfirborði og rifnu pappírsblaði, hverju orði og setningu, hvort sem þær eru hennar hugarsmíð eða fengnar að láni. Um leið og efnisval og vinnuaðferðir bera því vott að Guðný Rósa leitar í nærumhverfi sitt eftir efnivið eru umfjöllunarefni hennar margslungin. Túlkun eigin innra lífs og áreitis í eigin umhverfi er farvegur sem hún hefur valið sér.

Titill sýningarinnar, opus – oups, er lýsandi fyrir listsköpun Guðnýjar Rósu, umhverfi hennar og eilífa undrun yfir fegurðinni og hinu listræna sem finna má í hversdagslegum hlutum. Opus merkir „verk“ á latínu og oups er frönsk upphrópun sem gæti útlagst „úps“ á íslensku – og er skrifuð „oops“ á ensku. Guðný Rósa býr og starfar í frönsku málumhverfi. Í titlinum má finna hik en einnig undrun sem verður til þegar smáir hlutir sem oft eru lítilsigldir í sjálfu sér verða að listaverki.

Guðný Rósa vinnur í fjölbreytta miðla. Teikningar og pappírsverk hafa verið fyrirferðarmikil á ferlinum en einnig hljóð- og vídeóverk, auk skúlptúra sem flestir eru í formi vítrínu. 

Guðný Rósa er fædd í Reykjavík 1969. Hún lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og hélt þá utan til framhaldsnáms í Belgíu. Þar hefur hún verið búsett nánast samfellt síðan og byggt upp myndlistarferil í Evrópu. Guðný Rósa hefur einnig verið virkur þátttakandi í íslensku myndlistarsamfélagi í rúman aldarfjórðung, kennt við Listaháskólann og sýnt verk sín reglulega hér á landi, meðal annars í Listasafni Íslands, í Hafnarborg og reglulega í Hverfisgalleríi.

Sýningin opus-oups er hin fimmta í röð árlegra sýninga á Kjarvalsstöðum þar sem sjónum er beint að ferli starfandi listamanna sem þegar hafa með fullmótuðum höfundareinkennum sett svip sinn á íslenska listasögu. 

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningarskrá með ljósmyndum af sýningunni, myndum af verkum og textum um Guðnýju Rósu og viðfangsefni hennar. 

Sýningarstjóri og ritstjóri sýningaskrárinnar er Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.