Sýningaropnun − D36 Steinunn Önnudóttir: Non plus ultra

Sýningaropnun − D36 Steinunn Önnudóttir: Non plus ultra

Sýning á verkum Steinunnar Önnudóttur, Non plus ultra, verður opnuð í D-sal Hafnarhússins, fimmtudag 14. mars kl. 17.00.  Steinnunn er 36. listamaðurinn sem sýnir í sýningaröðinni í D-sal.

Sýningin Non plus ultra er eins konar kyrralífsmynd, bæði málverk og innsetning í senn. Í eltingarleiknum við raunveruleikann ber á átökum milli efnis og ásetnings. Steinunn nálgast verkið á forsendum málverksins þar sem hún teygir á hugtakinu að formi, efni og áferð.

Steinunn fæst við málverkahefðina í víðum skilningi og rannsakar efniseiginleika og birtingarmyndir í sögu og samtíma. Hún veltir fyrir sér raunveruleika og eftirmynd, því sem er og því sem þykist vera. 

Titill sýningarinnar vísar í forna heimsmynd Grikkja og Rómverja sem töldu að heimurinn endaði handan Gíbraltarsunds. „Non plus ultra" er latína og þýðir „ekkert handan þessa staðar“. Með titlinum vísar Steinunn í það sem við sjáum ekki. Hvað er handan hins sýnilega heims? 

Steinunn (f. 1984) útskrifaðist með BA í myndlist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2011 og lauk einnig BA í grafískri hönnun frá sama skóla árið 2009. Steinunn hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Árið 2014 stofnaði Steinunn sýningarrýmið Harbinger og hefur starfrækt það síðan. 

Sýningarstjóri er Aldís Snorradóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er efnilegum listamönnum, sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu, boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.