Sýningaropnun - D30 Ragnar Þórisson: Mannslíki

Sýningin Mannslíki eftir Ragnar Þórisson verður opnuð fimmtudaginn 16. mars kl. 17.00. Þetta er þrítugasta sýningin í D-salarröð Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi.

Segja má að málverkið taki á sig mannsmynd í gegnum liti og línur listamannsins Ragnars Þórissonar. Verkin eru opin og gefa til kynna lágstemmda hreyfingu bæði í tíma og rúmi þannig að svo virðist sem listamaðurinn reyni að fanga eitthvað sem auganu er dulið alla jafna. Myndheimur málverkanna er kunnuglegur en jafnframt framandi. Ragnar hefur engar sérstakar fyrirmyndir í huga í málverkum sínum, mannfólkið er allflest óþekkjanlegt, andlitsdrættir eru máðir, teygðir og margfaldaðir, líkamar huldir stórum litaflötum eins og kuflar. Umhverfi þeirra gefur sáralitlar upplýsingar, aðeins óljósa tilfinningu fyrir því að vera utandyra eða inni.

Sýningarstjóri Mannslíkis er Markús Þór Andrésson.

Ragnar er fæddur árið 1977 og útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur frá því snemma á námsárunum nær eingöngu fengist við málaralist. Ferilinn hóf hann í abstrakt- málverki, en fór brátt að einbeita sér að myndum sem sýna manneskjuna í ýmsum tilbrigðum.

Ragnar hélt fyrstu einkasýningu sína í Gallerí Ágúst árið 2012. 2013 hélt hann tvær einkasýningar, aðra í Kling & Bang og hina í Tveimur hröfnum. Þá tók Ragnar þátt í samsýningunni Vara-litir í Hafnarborg árið 2014. Í sumar tekur hann þátt í hinum Norræna tvíæringi, Momentum, í Noregi.

Ragnar hlaut styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur í nóvember 2013.

Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2017 eru áætlaðar alls fjórar sýningar í sýningaröðinni.

Leiðsögn listamanns - sunnudaginn 19. mars kl. 15.00.