Sýningaropnun – Ásmundur Sveinsson: List fyrir fólkið

Ásmundur Sveinsson, Höfuðlausn, 1948, og bókin Ásmundur Sveinsson.

Í tilefni útgáfu viðamikillar bókar um Ásmund Sveinsson verður opnuð yfirlitssýning á verkum listamannsins, List fyrir fólkið, í Listasafni Reykjavíkur – Ásmundarsafni, laugardaginn 20. maí kl. 16.00. Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, opnar sýninguna. 

Bókin er ríkulega myndskreytt en í henni eru jafnframt greinar sem varpar ljósi á feril Ásmundar og stöðu hans í íslenskri listasögu út frá ólíkum sjónarhornum. Hann lifði gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi 20. aldarinnar og var einn af þeim sem kynntu þjóðina fyrir nýjum straumum í myndlist aldarinnar. Megin grein bókarinnar er eftir Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing og fjallar hún um list Ásmundar, samtíma hans og helstu áhrifavalda. Höfundar annarra greina eru Eiríkur Þorláksson, listfræðingur, Pétur H. Ármannsson, arkitekt og Hjálmar Sveinsson, heimspekingur. Hönnuður bókarinnar er Ármann Agnarsson.

Á sýningunni er sjónum beint að öllum ferli listamannsins allt frá tréskurðarnámi hjá Ríkharði Jónssyni og til síðustu ára listamannsins. Sýnd eru verk unnin í ýmis efni þar á meðal verk höggvin úr tré, steinsteypu og brons. Á sýningunni verða jafnframt frummyndir þekktra verka sem stækkuð hafa verkið og sett upp víða um land. Hönnuður sýningarinnar er Finnur Arnar Arnarson og er framsetning verkanna með þeim hætti að í einstakri umgjörð Ásmundarsafns fá þau nýtt og kröftugt samhengi. Sýningarstjóri og ritstjóri bókarinnar er Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Ásmundur Sveinsson fæddist að Kolstöðum í Dölum 20. maí 1893. Hann var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir í myndlist 20. aldar. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú en samfélagið og tækniframfarir 20. aldar voru honum einnig ríkuleg uppspretta hugmynda. Verk Ásmundar eru á opinberum stöðum víða um land og setja svip sinn á Reykjavík. Það er í anda þeirrar afstöðu Ásmundar að listin eigi að vera úti á meðal fólksins og hluti af daglegu lífi. Hann lést árið 1982 en Ásmundarsafn við Sigtún var opnað almenningi árið 1983 og er nú hluti af Listsafni Reykjavíkur.