Sýningarlok á Hugur og heimur á Kjarvalsstöðum

Nú fer hver að verða síðastur að sjá lykilverk Kjarvals úr einkasafni Þorvaldar í Síld og fisk á Kjarvalsstöðum. Sýningin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Sunnudagurinn 21. ágúst er síðasti sýningardagur á verkunum. Þau eru fengin að láni úr einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, sem varðveitt er í Gerðarsafni í Kópavogi. Meðal þess sem má sjá á sýningunni er Lífshlaupið - stór veggmynd frá vinnustofu listamannsins í Austurstræti. Kjarval lauk við að mála Lífshlaupið árið 1933 en í verkinu má greina ýmis atriði sem koma endurtekið fyrir í verkum hans.
Á menningarnótt, laugardaginn 20. ágúst kl. 15 verður Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og sýningarstjóri sýningarinnar með ókeypis leiðsögn um sýninguna.