Sýningarlok: Guðný Rósa Ingimarsdóttir: opus – oups

Síðasti dagur sýningarinnar Guðný Rósa Ingimarsdóttir: opus – oups á Kjarvalsstöðum er sunnudagurinn 16. janúar.
Sýningin opus – oups er yfirlitssýning á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur undanfarinn aldarfjórðung. Hún hefur unnið í fjölbreytta miðla, líkt og hljóð og skúlptúra, en pappírsverk hennar hafa verið fyrirferðarmikil á ferlinum. Verkin einkennast af nákvæmni og eru gjarnan skorin út, teiknuð með fínlegum blýanti, saumuð með tvinna og ólíkum efnum jafnvel skeytt saman. Fjölbreyttur pappír eins og kalkipappír, arkitektapappír, veggfóður og algengur prentpappír leikur gjarnan stórt hlutverk í verkum hennar og útkoman er einlæg og persónuleg.
Guðný Rósa (f. 1969) hefur sýnt verk sín á einkasýningum hér á Íslandi og víðsvegar um Evrópu. Verk hennar má finna í opinberum söfnum í Frakklandi, Belgíu, Slóveníu og Íslandi. Guðný Rósa býr og starfar í Belgíu.
Sýningin er fimmta í röð sýninga í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum þar sem tekinn er til skoðunar ferill listamanns sem þegar hefur markað áhugaverð spor og má ætla að sé á listferli sínum miðjum. Hverri sýningu fylgir vegleg sýningaskrá með ljósmyndum af sýningunni, myndum af verkum og textum um Guðnýju Rósu og viðfangsefni hennar.