Sýningaopnun: Blómsturheimar og Get ekki teiknað bláklukku

 Sýningaopnun: Blómsturheimar og Get ekki teiknað bláklukku

Laugardag 25. maí kl. 16.00 verða opnaðar sýningar á verkum myndlistarmannanna Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals (1885-1972) og Sölva Helgasonar (1820-1895) í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjórar eru myndlistarmennirnir Eggert Pétursson og Harpa Björnsdóttir. 

Sýningarnar hverfast báðar um blóm og nefnast Get ekki teiknað bláklukku og Blómsturheimar. Eitt af varðveittum verkum Kjarvals er skissa af bláklukku þar sem hann krotaði þessi orð „Get ekki teiknað bláklukku“. Fjölskrúðugt blómaflúr er aðaleinkenni mynda Sölva Helgasonar. Í aðdraganda sýningarinnar barst þjóðinni gjöf frá Danmörku á 16 verkum eftir Sölva og verða þau sýnd í fyrsta skipti opinberlega á sýningunni.

Eggert og Harpa ávarpa gesti við opnun sýningarinnar. 

Eggert Pétursson ákvað að rannsaka blómaþáttinn í verkum Kjarvals og taka verkefnið listrænum tökum. Eggert segir að blómaverk Kjarvals séu yfirgripsmeiri heldur en verk hans sjálfs, að Kjarval fari út um víðan völl. Hann einskorði sig ekki við grasafræði heldur máli og teikni þau blóm sem eru í kringum hann, hvort sem það eru skrautblóm, pottaplöntur eða villt blóm, en ekki síst máli hann flóru hugans. Eggert ákvað að flokka verkin eftir efnisþáttum og myndrænum skyldleika og sýna þau eins og um sín eigin verk væri að ræða. Val hans á verkum er fremur hugsað til að mynda heillega sýningu en að sýna sögulegt yfirlit blómaverka Kjarvals. 

Verkunum er raðað í þrjá meginflokka í þrjá sali sýningarinnar;

Í miðsalnum er blómalandslag og myndir úr íslenskri villiflóru. Þar eru verk þar sem Kjarval tekst fyrst á við villt blóm, aðallega lyng. Í rissi og pári Kjarvals er oft hægt að þekkja algengar blómategundir og þannig skissur getur að líta í sýningarkössum. Landslag og blómapár fléttast saman í verkum Kjarvals og á síðustu árum ferilsins málar hann hugarlandslag, gráa veröld sem blóm lýsa upp.

Í norðursalnum eru verk sem kalla mætti hátíðarblóm, það eru afskorin blóm, pottablóm og blómakörfur, verk sem Kjarval gerði til gjafa, bæði frá sjálfum sér eða fyrir aðra að gefa.

Í suðursalnum eru síðan blómafantasíur Kjarvals, þar sem andlit og verur fléttast saman við blómapár í málverkum, teikningum og rissi. 

Sölvi Helgason eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun. Flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem fór á svig við mannanna lög og reglur og var hegnt fyrir með fangelsisvist. 

Litarefni og pappír var fágætt á tímum Sölva og því er aðdáunarverð útsjónarsemi hans við að útvega sér nauðsynlegan efnivið og vinna að myndverkum sínum við misjöfn skilyrði og lítinn skilning samtímafólks. Fjölskrúðugt blómaflúr er aðaleinkenni mynda Sölva og notaði hann margoft sömu blómamynstrin, annaðhvort sem aðalatriði myndflatarins eða sem bakgrunn andlitsmynda.

Sölvi var einnig sískrifandi, bæði sagnfræðilega texta, ljóð og hugleiðingar. Eru bakhliðar mynda hans oft þaktar örsmárri handskrift og pappírinn nýttur til hins ýtrasta. Listrænt vægi og gæði myndverka Sölva Helgasonar er óumdeilanlegt og aðdáunarverð sjálfsprottin og þrautseig sköpunarþrá hins fátæka förumanns. 

Til tíðinda heyrir að á sýningunni Blómsturheimar verða sýnd 16 áður óþekkt verk eftir Sölva Helgason sem varðveist hafa í Danmörku. Er þessi mikilvægi íslenski menningararfur gjöf Ingrid Nielsen til íslensku þjóðarinnar.