Sýningaopnun: Andreas Eriksson á Kjarvalsstöðum: Roundabouts og Efsta lag

Sýningarnar Roundabouts og Efsta lag verða opnaðar á Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum laugardaginn 27. september kl. 16. Á sýningunni Roundabouts eru verk eftir sænska listamanninn Andreas Eriksson, hann er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar Efsta lag en þar eru bæði verk eftir hann og Jóhannes S. Kjarval.

Andreas Eriksson (f. 1975) er einn virtasti listamaður Svía af sinni kynslóð, hann var m.a. fulltrúi Svíþjóðar í Norræna skálanum á Feneyjartvíæringnum 2011 og verk hans hafa verið sýnd víða um heim. Roundabouts er fyrsta stóra alþjóðlega einkasýning hans en hún er samvinnuverkefni Bonniers Konsthall, Listasafnsins í Þrándheimi, Centre Pasque Art, Biel og Listasafns Reykjavíkur. Á sýningunni eru verk frá síðustu tíu árum en þar eru m.a. málverk, ljósmyndir, höggmyndir, kvikmyndir og vefnað.

Andreas Eriksson hefur unnið að málaralist í rúma tvo áratugi. Hann sækir einnig til annarra miðla eins og í ljósmyndun, höggmyndlist, vefnað og kvikmyndun. Margir tengja listsköpun hans við norður-evrópska rómantíska málarahefð. Hann sækir gjarnan hugmyndir sínar til náttúrunnar og í umhverfið kringum heimili sitt í Kinnekulle á Vestur-Gotlandi í Svíþjóð þar sem hann er einnig með vinnustofu. Hann notar þannig strigann og litina til að túlka umhverfið í kringum sig. Sýningin Roundabouts er styrkt af Norræna menningarsjóðnum.

Andreas Eriksson er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar Efsta lag en þar eru bæði verk eftir Jóhannes S. Kjarval 1885–1972) og hann sjálfan. Eriksson segir að Kjarval hafi veitt sér mikinn innblástur í gegnum tíðina og bendir á að Kjarval hafi ekki aðeins reynt að komast nær náttúrunni, hrauni og grjóti í verkum sínum heldur hafi hann líka beint athyglinni að sjálfri olíumálningunni líkt og hann hafi viljað færa litina aftur að uppruna sínum. Kjarval þróaði ákveðinn stíl og tækni við að ná fram þeirri efniskennd og áferð sem er í jarðveginum. Þessar áherslur vöktu athygli Erikssons þar sem viðfangsefnin í verkum hans eru einnig efniskennd jarðvegsins, hvernig mold og steinar birtast í umhverfinu frekar en landslagið í heild eða eins og hann segir sjálfur: ,,Í málverkunum verður náttúran að skúlptúr.“