Sýning Einars Hákonarsonar Púls tímans verður opnuð á Kjarvalsstöðum, laugardaginn 17. janúar kl. 16

Púls tímans, Yfirlitssýning á verkum Einars Hákonarsonar (f. 1945) verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum laugardaginn 17. janúar kl. 16. Verkin á sýningunni ná yfir rúmlega 50 ára feril listamannsins allt frá æsku- og skólaverkum og til ársins 2014.

Einar hefur á ferli sínum málað fígúratíf og expressjónísk málverk með manneskjuna í fyrirrúmi og eru verkin á sýningunni valin með það fyrir augum að sýningargestir geti með tiltölulega auðveldum hætti lesið sig í gegnum þróunina sem hefur átt sér stað í verkum hans. Yfirskrift sýningarinnar Púls tímans er jafnframt heiti á einu verki á sýningunni og vísar til vilja listamannsins til að hafa fingurinn á púlsi tímans. Sýningarstjóri er Ingiberg Magnússon.

Einar var enn í framhaldsnámi í Valand - listaháskólanum í Svíþjóð (eftir nám í MHÍ) þegar hann hann myndlistarverðlaun Norðurlandaráðs og voru verk hans sýnd í Louisiana safninu í Kaupmannahöfn. Eftir námsárin í Svíþjóð hélt hann sína fyrstu einkasýningu í Bogasalnum árið 1968 en með henni var ljóst að nýr tónn var sleginn í íslenskri myndlist. Manneskjan hafði tekið sér stöðu í forgrunni myndverkanna eftir alllanga fjarveru.

Einar var einn af frumkvöðlum grafíklistar á Íslandi, forvígismaður að stofnun Íslenska Grafíkfélagsins og fyrsti formaður þess. Hann var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1978-1982 og stofnaði þá grafíkdeild og myndhöggvaradeild, ásamt því að blása nýju lífi keramikdeild skólans. Einar hefur komið að fjölda opinberra sýninga. Hann stjórnaði m.a. 1100 ára afmælissýningu Íslandsbyggðar 1974. Hann var listrænn forstöðumaður Kjarvalsstaða og Ásmundarsafns 1987-1988 (Listasafn Reykjavíkur) og formaður stjórnar Kjarvalsstaða 1982-1986. Þá byggði hann árið 1996 Listaskálann í Hveragerði (Nú Listasafn Árnesinga).
Einar hefur alla tíð verið afkastamikill myndlistarmaður og á sýningarvettvangi. Á ferli sínum hefur hann haldið yfir 40 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um lönd.

Á sama tíma opnar safneignasýning á verkum Kjarvals sem nefnist Ljóðrænt litaspjald. Á sýningunni eru m.a. teikningar sem Kjarval vann á plast og hafa ekki verið sýndar áður. Viðfangsefni Kjarvals voru gjarnan landslagsmyndir, mannamyndir og fantasíur og oft má sjá þau öll koma fyrir í sama verkinu.