Sol LeWitt – starfsnemar óskast

Sol LeWitt - starfsnemar

Listasafn Reykjavíkur leitar að starfsnemum til þess að taka þátt í gerð veggteikninga Sol LeWitt á tímabilinu 15. janúar - 15. febrúar 2020.

Sýning á verkum þessa heimskunna bandaríska listamanns er fyrirhuguð í Hafnarhúsi febrúar – maí 2020.

Veggteikningar Sol LeWitt eru sérstaklega staðfærðar fyrir hvern sýningarstað eftir formúlum sem listamaðurinn skildi eftir sig. Teikningarnar hafa verið settar upp víða um heim, jafnt tímabundið á söfnum og sýningarstöðum sem varanlega í opinberum byggingum.

Aðferðafræði hans er einstök og búa verkin yfir sérstakri áru einfaldleika um leið og þau hlaða rýmið sem þau fylla nýrri merkingu. Arfleifð listamannsins er að miklu leyti haldið til haga af stúdíói sem tileinkað er minningu hans og uppsetningu veggteikninganna.

Unnið er undir handleiðslu sérfræðinga sem ferðast á milli safna og setja upp verk LeWitt víða um heim. Bæði er um að ræða blekverk og blýantsverk.

Safnið reiknar með því að þeir sem koma að verkinu geti nýtt sér það sem hluta af námsferli og/eða geti litið á það sem dýrmætt námskeið. 

Áhugasamir vinsamlegast sendið upplýsingar á póstfangið listasafn@reykjavik.is, merkt „Sol LeWitt“ fyrir 23. des 2019.
Nánari upplýsingar veitir Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar í síma 411 6400.