Sjávarmál – nýtt útilistaverk

Sjávarmál – nýtt útilistaverk

Höfundar listaverks sem valið var úr sjötíu innsendum tillögum um nýtt útilistaverk í Vesturbæ Reykjavíkur eru arkitektarnir Baldur Helgi Snorrason og David Hugo Cabo í samstarfi við Andra Snæ Magnason rithöfund. Verkið hefur fengið nafnið Sjávarmál.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, tilkynnti um niðurstöðu dómnefndar í dag. Athöfnin fór fram við Eiðsgranda, þar sem áætlað er að verkið rísi.

Niðurstaða dómnefndar er að verkið Sjávarmál sé einstakt verk sem skapi spennandi umhverfi og fjalli um aðkallandi viðfangsefni um leið og það uppfyllir öll skilyrði samkeppninnar um að auðga mannlíf í Vesturbænum. Í dómefnd sátu Gunnar J. Árnason og Aldís Arnardóttir, tilnefnd af SÍM, Leifur Ýmir Eyjólfsson, tilnefndur af innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur, Þórólfur Jónsson, fulltrúi Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Ásta Olga Magnúsdóttir, fulltrúi íbúaráðs Vesturbæjar.

Verkinu er ætlaður staður á sjávarkambinum við Eiðsgranda og blasir við hafi. Ekkert útilistaverk er staðsett á þessu svæði og það mun auka notagildi og aðdráttarafl svæðisins fyrir íbúa og þá sem þar eiga leið um. Á þeirri hlið listaverksins sem snýr að hafinu er steypt innbjúg skál sem safnar hljóðum hafsins og magnar þau upp með einföldu endurkasti fyrir þann sem stendur fyrir framan skálina. Á þeirri hlið sem snýr að byggð er hrjúfur veggur þar sem íslensk heiti fyrir hafið eru letruð. Áhrif loftslagsbreytinga á hafið eru höfundum hugleikin og verkinu er ætlað að bjóða upp á tækifæri fyrir þá sem eiga leið hjá til að staldra við, upplifa krafta hafsins og hlusta eftir því náttúran hefur að segja okkur.

Samkeppni um útilistaverk í Vesturbæ var haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna og í kjölfar íbúakosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020. Á meðal þess sem Vesturbæingar kusu var að halda samkeppni um gerð útilistaverks í hverfinu. Hverfið mitt er íbúalýðræðisverkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem íbúum gefst kostur á að setja fram hugmyndir um úrbætur í nærumhverfi sínu. Þeim hugmyndum sem hljóta brautargengi í kosningu meðal borgarbúa er síðan hrint í framkvæmd.