Sigurður Guðjónsson er myndlistarmaður ársins 2018

Sigurður Guðjónsson, myndlistarmaður ársins 2018.

Listasafn Reykjavíkur óskar Sigurði Guðjónssyni hjartanlega til hamingju með íslensku myndlistarverðlaunin 2018. Einnig óskar safnið Auði Lóu Guðnadóttur til hamingju með hvatningarverðlaun ársins. Safnið óskar jafnframt aðstandendum verðlaunanna til hamingju með þessa frumraun, þetta er glæsileg lyftistöng fyrir listalífið í landinu.

Verlaunin voru veitt í fyrsta skipti í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi fimmtudaginn 22. febrúar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin. Myndlistarráð stendur að verðlaununum og er tilgangur þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi, stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og liður í því að efla íslenska samtímamyndlist. Verðlaunaféð ein milljón króna. Hvatningarverðlaunin eru 500 þúsund krónur. 

Fjórir listamenn voru tilnefndir til verðlaunanna, verðlaunahafinn sjálfur, Sigurður Guðjónsson, fyrir sýninguna Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, á vegum Listasafns ASÍ. Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg í Hafnarfirði, Egill Sæbjörnsson, fyrir sýninguna Ūgh & Bõögâr Jewellery í Gallerí i8 í Reykjavík og Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Gallerí Kling og Bang í Reykjavík. 

Um sýningu Sigurðar, Innljós, er haft eftir dómnefndinni, í riti sem gefið var út samhliða verðlaununum, að verk hans myndi einstaklega sterka heild og að með áhrifamiklu samspili myndar og hljóðs og honum takist að gera áhorfandann meðvitaðan um sögu sýningastaðarins, andlegar víddir og eigin hverfulu tilvist. 

Dómnefndin var skipuð Margréti Kristínu Sigurðardóttur, formanni myndlistarráðs, Bryndísi Hrönn Ragnarsdóttur frá sambandi íslenskra myndlistarmanna, Magnúsi Gestssyni frá Listfræðafélagi Íslands, Margréti Elísabetu Ólafsdóttur, fulltrúa forstöðumanna safna og Sigrúnu Ingu Hrólfsdóttur deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.