Sigrún Inga hlýtur rannsóknarstöðu

Sigrún Inga Hrólfsdóttir, ljósmynd Ásta Kristjánsdóttir.

Sigrún Inga Hrólfsdóttir hefur verið valin til að gegna rannsóknarstöðu innan Listasafns Reykjavíkur sem hefur það markmið að rannsaka hlut kvenna í íslenskri listasögu.  

Tillaga Sigrúnar um rannsókn og sýningu sem byggir á list Hildar Hákonardóttur var valin úr þrettán fjölbreyttum umsóknum. Telur dómnefnd viðfangsefni Sigrúnar líklegt til að hafa áhrif á sýn manna á hlut Hildar í samhengi íslenskrar listasögu. 

Hildur Hákonardóttir er fædd árið 1938 og hefur á löngum starfsferli sínum tekið á málefnum samtíma síns og nýtt til þess fjölbreytta miðla, þó mest vefnað. Hún hefur fjallað um kynjapólitík og samfélagsmál, var virk í Rauðsokkahreyfingunni og var ein fárra kvenna í SÚM auk þess sem hún var skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1975-78 og á þannig þátt í mótun myndlistarmenntunar á Íslandi. 

Sigrún er starfandi myndlistarmaður og á að baki öflugan feril bæði undir eigin nafni og með Gjörningaklúbbnum. Hún hefur staðið að útgáfum og birt greinar og fetar hér inn á frekari brautir fræðimennsku.

Sigrún lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1996 og stundaði síðan framhaldsnám við Pratt Institute í New York. Sigrún lauk meistaraprófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2016. Hún var deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands 2016 - 2021.

Alls bárust 13 tillögur frá fjölbreyttum hópi fræðimanna sem báru með sér að hér er á ferðinni viðfangsefni sem vert er að gefa gaum. Í valnefnd sátu Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Edda Halldórsdóttir listfræðingur við deild safneignar og rannsókna í safninu og Æsa Sigurjónsdóttir dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

Rannsóknarstaðan, sem unnin er í samstarfi við listfræði við HÍ, hlaut þriggja ára öndvegisstyrk Safnaráðs og verður auglýst aftur árið 2022.