Síðustu sýningardagar tveggja sýninga í Hafnarhúsi

Sýningunni Skipbrot úr framtíðinni/ sjónvarp úr fortíðinni eftir listakonuna Ásdísi Sif Gunnarsdóttur lýkur sunnudaginn 19. október í Hafnarhúsi. Verk hennar er stór vídeóinnsetning sem er samsett úr fjölda vídeóverka þar sem frásögnin er óhefðbundin og fram koma augnablik frá fortíð og framtíð. Ásdís Sif kannar möguleika vídeómiðilsins til að búa til hrynjanda og flæði og dregur fram lifandi mynd af fortíð og framtíð. Þessi skörun tímans vísar til bíómynda sem gerast í framtíðinni þar sem töfrandi persónur birtast á dularfullum stöðum eins og löngu gleymd minningarbrot. Listamaðurinn Erró veitti Ásdísi Sif Gunnarsdóttur verðlaunafé og viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur, fyrir framlag hennar á sviði myndlistar á opnun sýningarinnar.

Sýningunni Gagnvirkur veggur eftir Mojoko og Shang Liang frá Singapúr lýkur tveimur dögum síðar eða þriðjudaginn 21. október. Sýningin hefur vakið mikla lukku hjá gestum Hafnarhússins og margir hafa sungið, kallað eða klappað síðustu vikur í safninu. Verkið er gagnvirkt listaverk og eitt af mörgum samvinnuverkefnum listamannsins Mojoko og tölvuforritarans Shang Liang. Mojoko gerði grafíkina sem er samsett úr 200 myndum frá popplist og dægurmenningu í Asíu og á Vesturlöndum. Hljóðnemi er tengdur í verkið og sýningargestir geta t.d. talað, blístrað eða kallað í hann og myndirnar í verkinu breytast eftir hljómi eða hljóðstyrk.