Síðustu sýningardagar á Tilurð Errós 1955-1964

Tilurð Errós 1955-1964 í Hafnarhúsi

Sýningunni Tilurð Errós 1955-1964 lýkur í Hafnarhúsi fimmtudaginn 29. september. Sýningin spannar mótunarár listamannsins, margslungið og glæsilegt tímabil í list hans og evrópskri listasögu, þegar hann fyrstur listamanna skapar það sem nefnt hefur verið „samklippimálverk“. 

Á sýningunni kemur fram hvernig Erró smá saman hverfur frá expressjónískri myndgerð og fer að vinna með samklippimyndir (collages) sem hann síðan málar eftirmyndir af á léreftið. Á þessum árum gerir hann ennfremur margvíslegar myndrænar tilraunir í málverkum, samklippitextaverkum og samtíningsverkum.

Sögusviðið er margbrotið lista og menningarlíf Parísarborgar og síðar New York þar sem hann kynnist af eigin raun bandarísku neyslu- og fjölmiðlasamfélagi og hvetjandi listalífi.