Síðustu sýningadagar á Heimsferð Maós og úngl-úngl

Ólöf Nordal: úngl-úngl í Ásmundarsafni og Erró: Heimsferð Maós í Hafnarhúsi

Síðasti dagur sýninganna Erró: Heimsferð Maós í Hafnarhúsi og Ólöf Nordal: úngl-úngl í Ásmundarsafni er sunnudagurinn 26. janúar.

Erró er einna fyrstur vestrænna listamanna til að tileinka sér goðsögn og myndir af Mao Zedong. Á árunum 1972 til 1980 málaði Erró seríuna Chinese Paintings, meira en 130 málverk sem segja sögu hins mikla leiðtoga sem fer sigurför um heiminn. Sérhvert málverk, líkt og flest málverk Errós allt frá árinu 1964, byggir á samklippu þar sem Erró stefnir saman tveimur myndum af ólíkum uppruna: kínverskum áróðursveggspjöldum og vestrænum túristamyndum frá þekktum áfangastöðum. Erró ímyndar sér Maó forseta og félaga hans fara sigurför um heiminn, en í rauninni fór Maó aðeins tvívegis til útlanda, í bæði skiptin á flokksþing Kommúnistaflokksins í Moskvu. 

Sýning á verkum Ólafar Nordal í Ásmundarsafni er sú fimmta og síðasta í röð einkasýninga fimm listamanna sem eiga það sameiginlegt að hafa skapað áberandi útilistaverk í borginni.