Síðasta sýningarhelgi á Kvennatíma – Hér og nú þrjátíu árum síðar

Nú eru síðustu forvöð að sjá samsýninguna Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar en síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 29. nóvember.

Hugmyndin að baki sýningarinnar er að kalla aftur saman á þriðja tug kvenna sem sýndu saman undir heitinu Hér og nú á Kjarvalsstöðum haustið 1985. Sýningin var einn umfangsmesti viðburður Listahátíðar kvenna sem efnt var til vegna loka kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur hátíðarinnar var að gera sýnilegt framlag kvenna á sviði lista- og menningar. Konurnar sem valdar voru til þátttöku á Hér og nú árið 1985 voru margar rétt að hefja ferilinn en aðrar höfðu verið virkar í sýningarhaldi á liðnum áratug.

Tilefni nýju sýningarinnar er einnig hátíð sem tengist konum en á þessu ári er haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hér á landi. Líkt og á sýningunni 1985 er lögð áhersla á að sýna ný verk og var öllum konunum á Hér og nú boðin þátttaka en þær eru allar enn virkar í listsköpun og sýningarhaldi, utan tveggja sem eru látnar. Verkin á sýningunni  spanna ýmsar aðferðir, miðla og hugmyndir.