Safnanótt – föstudag 3. febrúar

Ilmur Stefánsdóttir: Panik í Hafnarhúsi.

Viðamikil dagskrá í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni á Safnanótt. Opið er til kl. 23.00 í öllum húsunum og frítt inn á alla viðburði.

Hafnarhús
Hápunktur Safnanætur í Listasafninu er opnun sýningar Ilmar Stefánsdóttur Panik í A-sal Hafnarhússins kl. 20.00. Listakonan fremur gjörning við undirleik dúettsins Cyber klukkustund eftir að sýningin hefur verið opnuð. Til þess að loka kvöldinu skemmtir plötusnúðurinn Sura gestum frameftir kvöldi.

Ásmundarsafn
Í Ásmundarsafni fer myndlistarkonan Sara Riel fyrir fjölskyldusmiðju frá kl. 18.00 – en þar eru til sýnis verk eftir Ásmund Sveinsson og Þorvald Skúlason á sýningunni Augans börn. Annar sýningarstjóri þeirrar sýningar, Viktor Pétur Hannesson, verður með leiðsögn fyrir gesti á hálftíma fresti frá kl. 18.30. Áhugafólk um arkitektúr ætti ekki að missa af leiðsögn Péturs Ármannssonar arkitekts, sem segir frá sögu og byggingarlist Ásmundarsafns kl. 21.30.

Kjarvalsstaðir
Á Kjarvalsstöðum verður gestum boðið upp á gagnvirka innsetningu eftir íslensk-portúgalska listhópinn @Change sem hefur það að markmiði að vekja safnagesti til umhugsunar um loftslagsbreytingar. Í hópnum eru meðal annarra listamaðurinn Curver Thoroddsen. Þegar líða fer á kvöldið, kl. 21.00 geta áhugasamir skráð sig í skoðunarferðir um það allra heilagasta, listaverkageymslurnar í kjallara Kjarvalsstaða. Starfsfólk Listasafns Reykjavíkur sýnir valin verk og segir frá.

Frá klukkan 18.00 verða örleiðsagnir um valin verk á sýningum í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum.
 

Auk stakra viðburða býðst gestum að skoða myndlistarsýningarnar í húsunum þremur: 

Í Hafnarhúsi lýkur brátt sýningunni YOKO ONO: EIN SAGA ENN... frásagnir listakonunnar og fyrirmælaverk vekja áhorfendur til umhugsunar og þátttökuverkin gera ráð fyrir framlagi þeirra til listarinnar. Hrina – vídeóverk úr safneign er viðamikið sýningarverkefni þar sem tekinn verður til sýninga stór hluti þeirra kviku myndverka sem til eru í safneign Listasafns Reykjavíkur. Titill sýningarinnar vísar til þess að verkin verða sýnd í fjórum hrinum og stendur hver þeirra yfir í um það bil einn mánuð. Panik eftir Ilmi Stefánsdóttur verður opin frá kl. 20.00. Tólf myndbandsverk mynda eina heildarinnsetningu þar sem kona hamast við eitthvað órætt og nýtir til þess ýmis tæki og tól. Á sýningunni Fantagóðir minjargripir í D-sal eftir Önnu Hrund Másdóttur má svo sjá hluti úr ýmiss konar landslagi sem Anna Hrund hefur tekið í sundur og endurraðað í uppstillingu af uppgötvunum úr raunveruleikanum.

Á Kjarvalsstöðum eru síðustu forvöð að sjá sýningu Hildar Bjarnadóttur, Vistkerfi lita, þar sem tekist er á við þörf mannsins fyrir að tilheyra ákveðnum stað í heiminum. Árið 2012 eignaðist Hildur landspildu í Flóahreppi. Sýningin hefur þennan stað sem útgangspunkt.
Í austursal eru valin verk Jóhannesar S. Kjarvals úr safneign Listasafns Reykjavíkur.

Í Ásmundarsafni stendur sýningin Augans börn þar sem sýnd eru verk Ásmundar Sveinssonar og Þorvalds Skúlasonar. Þeir voru í hópi þeirra listamanna sem stöðugt voru að tileinka sér ný viðhorf innan myndlistarinnar um miðja síðustu öld. Sýningin er samstarf Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands.