Richard Serra, Magnús Sigurðarson og Kathy Clark í Hafnarhúsinu - Opnun fimmtudaginn 21. maí kl. 17

Serra, Áfangar

Þrjár glæsilegar sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 21 maí kl. 17, Áfangar eftir bandaríska listamanninn Richard Serra, Athöfn og yfirskin eftir Magnús Sigurðarson og Bangsavættir eftir Kathy Clark. 

Richard Serra: Áfangar
Á sýningunni Áfangar í Hafnarhúsi eru 19 teikningar með olíukrít á pappír sem Richard Serra gerði í tengslum við umhverfisverk sitt Áfanga sem sett var upp í Viðey árið 1990. Auk þeirra eru 30 grafísk verk- ætingar og þrykk-frá 1991 sem eru í eigu Landsbanka Íslands.. Á sýningunni eru einnig 3 vídeóverk eftir Svein M. Sveinsson (Plús film) sem er varpað samtímis á þrjá veggi í C-sal Hafnarhússins. 
Áhersla er lögð á bein tengsl sýningarinnar við umhverfisverkið sjálft með reglulegum ferðum í Viðey. Boðið verður uppá leiðsagnir í Hafnarhúsi og í eyjunni á hverjum laugardegi frá júní–ágúst og 4 vikulöng námskeið um myndlist og náttúruskoðun fyrir börn og unglinga.  
Á þessu ári er aldarfjórðungur síðan verkið var sett upp í Viðey en Listahátíð í Reykjavík átti frumkvæðið að uppsetningu verksins og stóð Reykjavíkurborg fyrir byggingu þess. Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vestureyju og  samanstendur af 18 stuðlabergsdröngum sem standa tveir og tveir saman og mynda hring um eyjuna. Verkið er einstakt í ferli Serra, bæði vegna umfangs þess og efnis, en þetta er eina stóra verk hans úr steini. 
Richard Serra er einn virtasti myndlistarmaður samtímans og hafa mörg leiðandi söfn haldið einkasýningar á verkum hans, m.a. Metropolitan Museum í New York árið 2010 og MoMA. Verk hans hafa verið sýnd tvisvar á Feneyjatvíæringinum og fjórum sinnum á Documenta sýningunni í Kassell, Þýskalandi. Og þannig má lengi telja enda hefur Serra verið lýst sem risa í myndlist samtímans  ("giant of modern art“).

Sýningin Áfangar er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Sýningarstjóri er Hafþór Yngvason.
 

Magnús Sigurðarson: Athöfn og yfirskin
Magnús Sigurðarson  (f. 1966) heldur sína fyrstu einkasýningu hér á landi um langt skeið en hann hefur verið búsettur í Miami í Bandaríkjunum í yfir áratug. Á sýningunni er m.a. myndbands-og hljóðinnsetning sem listamaðurinn vann nýlega í Hallgrímskirkju og landslagsteikningar. Magnús beinir sjónum sínum að nokkrum fastapunktum tilverunnar sem er að finna bæði í náttúru og menningu. Ýmis sköpunar- og listaverk hafa öðlast gildi í leit mannsins að hinu háleita. Þau sameina að því er virðist andstæða eiginleika, eru annars vegar ægifögur og yfirgnæfandi og hins vegar látlaus og einföld. Magnús gerir tilraun til að brjóta þessi haldreipi upp í frumeindir í leit að einhvers konar kjarna og spyr í leiðinni um innri og ytri veruleika manneskjunnar og afstöðu hennar gagnvart æðri mætti. Magnús er þekktastur fyrir ljósmyndaseríur, myndbandsverk og innsetningar þar sem hann skírskotar til kunnuglegra þátta úr dægurmenningu, fjölmiðlum og almennrar vitneskju. Á sýningunni í Hafnarhúsinu tekst hann á við sammannlega þrá eftir hinu háleita en hún kann að leynast við hvert fótmál.
 
Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson en þann 23. maí kl. 15 er gestum boðið að koma og hlusta á hann ræða við listamanninn um sýninguna. 

Kathy Clark: Bangsavættir
Uppistaðan í innsetningu Kathyar Clark eru bangsar sem áður voru í eigu annarra. Um er að ræða þúsundir bangsa, sem listakonan hefur farið ómildum höndum um og umbreytt.Í eina tíð þjónuðu þessir mjúku og loðnu bangsar tilgangi sínum sem félagar barna. En eins og raunin er með flesta hluti, missa þeir að lokum notagildi sitt. En kannski búa þeir yfir orku frá fyrri eigendum sínum. 

Kathy meðhöndlar tuskubangsana til að ná fram ólíkum áhrifum. Utan um suma vefur  hún þræði og dýfir svo í vax til að ná fram brengluðum formum, aðra sker hún upp og tæmir og hellir loks heitu vaxi yfir feld þeirra. Svo eru aðrir sem hún klippir í búta og saumar saman aftur, límir eða kremur.Ferðin í gegnum innsetninguna teymir áhorfandann m.a.  í gegnum stofu, skýjum hulinn kirkjugarð, varðaða heiði, safn fjölskyldumynda og milli bangsatrjáa.  Drungaleg lýsingin ásamt samsöng umhverfishljóða styður við innsetninguna og birtir sálfræðilega spillingu og leyndardómsfullan veruleika sem ætlað er að kalla fram bernskuminningar áhorfandans. Þeirra á meðal minningum og tilfinningum tengdum höfnun og vanrækslu. 
 
Bangsavættir / Bears; truths..., er fyrsta einkasýning Kathy Clark í opinberri listastofnun í Reykjavík. Kathy er af bandarísku og asísku bergi brotin og ólst upp í úthverfi Chicagoborgar. 

Hún lauk meistaranámi í myndlist frá San Francisco Arts Institute og sýndi list sína í kjölfarið víðs vegar um Bandaríkin. Hún hefur verið búsett í miðbæ Reykjavíkur í áraraðir og hefur unnið að myndlist sinni og Bangsavættum í kyrrþey allan þann tíma. 
Kathy rekur gluggagalleríin Veður og vindur og Betra veður sem voru tilnefnd til Menningarverðlauna Dv 2014.