Óskatré Yoko Ono í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum

Óskatré Yoko Ono í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum

Óskatré (e. Wish Tree) er listaverk eftir Yoko Ono frá árinu 1996, nátengt Friðarsúlunni. Verkið er sett upp árlega á völdum stöðum í Reykjavík í tengslum við tendrum Friðarúlunnar. 

Óskatré er þátttökuverk – þátttaka okkar skapar listaverkið - þar sem Yoko Ono býður þeim sem vilja að skrifa persónulegar óskir um frið á hvíta miða og hengja á trjágreinar birkitrjáa sem komið hefur verið fyrir í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum.

Verkið hefur verið sett upp um allan heim og eru notaðar trjátegundir sem vaxa í hverju landi fyrir sig. Óskirnar telja nú yfir eina millljón. Þær eru teknar saman víðsvegar um heiminn og þær sendar til Íslands. Þeim er svo komið fyrir í brunni Friðarsúlunnar. Ljósgeisli súlunnar lýsir svo á táknrænan hátt kröftugum óskum fólks frá öllum heimshornum upp í himinhvolfið, hvatningarljós friðar og samstöðu.

Óskatrjám er komið fyrir í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur ár hvert á sama tíma og Friðarsúlan er tendruð.

„Ég vona að Friðarsúlan muni lýsa upp óskir um heimsfrið hvaðanæva að úr veröldinni og veita hvatningu, innblástur og samstöðu í heimi þar sem nú ríkir ótti og ringulreið. Sameinumst um að gera friðsæla veröld að veruleika.“ – Yoko Ono