Opnun tveggja sýninga á Kjarvalsstöðum: Líðandin – la durée og Myrkraverk

Sýningarnar Líðandin – la durée og Myrkraverk á Kjarvalsstöðum.

Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum laugardaginn 13. janúar kl. 16.00. Ný sýning á verkum Jóhannesar S. Kjarval (1885-1972) sem ber heitið Líðandin – la durée í sýningarstjórn Aldísar Arnardóttur og samsýningin  Myrkraverk  þar sem sýnd eru verk sex íslenskra listamanna; Alfreðs Flóka (1938–1987), Ástu Sigurðardóttur (1930-1971), Jóhönnu Bogadóttur (1944), Kristins Péturssonar (1896–1981), Siggu Bjargar Sigurðardóttur (1977) og Sigurðar Ámundasonar (1986). Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Verk Kjarvals á sýningunni Líðandin – la durée í vestursal eru að mestu frá fyrri hluta ferils hans undir áhrifum frá framúrstefnuhreyfingum eins og fútúrisma og kúbisma. Sundurgreinandi form og uppbrot sjónarhornsins voru meðal helstu einkenna þessara listhreyfinga. Kjarval kynntist þessum hreyfingum sem ungur maður í Kaupmannahöfn þar sem hann stundaði listnám og einnig í London þar sem hann sá sýningar á verkum ítalskra fútúrista sem höfðu áhrif á hann. Hann tókst á við þessar hugmyndir á gagnrýninn hátt og skapaði sitt persónulega myndmál.

Sýningin Myrkraverk í austursal er samansafn verka eftir listamenn sem eiga það sameiginlegt að hafa sótt sér innblástur úr þjóðsögum og skáldskap eða skapað sinn eigin huliðsheim tákna og mynda. Sýningin er bæði dularfull og spennandi og kveikir á ímyndunaraflinu á dimmasta tíma ársins. Sumar myndanna vísa til kunnra skráðra sagna en aðrar hafa mótast með sjálfstæðum hætti í frásagnarheimi listamannsins. Allar endurspegla þær mannlega tilvist, samskipti, tilfinningar og hugarástand. „Myrkraverkin“ eru flest unnin á pappír; teikningar og grafíkverk.

Elsa Yeoman, formaður Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur opnar sýningarnar.

Fjölbreytt dagskrá er í boði samhliða sýningunum, leiðsagnir, fyrirlestrar og námskeið.