Öndvegisstyrkur úr Safnasjóði

Tileinkun eftir Eyborgu Guðmundsdóttur, 1975.

Listasafn Reykjavíkur er stolt af því að tilkynna um veglegan styrk úr Safnasjóði, svokallaðan Öndvegisstyrk, að upphæð 12 milljónir króna. Öndvegisstyrkir eru veittir viðurkenndum söfnum til stærri verkefna sem taka til 2ja-3ja ára.

Styrkurinn til Listasafns Reykjavíkur er ætlaður til að stofna tímabundna rannsóknarstöðu við safnið með áherslu á hlut kvenna í íslenskri listasögu. Um er að ræða þrískipta samkeppnisstöðu sem felur í sér þrjár rannsóknir með útgáfum, sýningum og almennri miðlun til safngesta.

Hér er á ferðinni tímabær og spennandi rannsókn sem ætla má að skili nýrri sýn á íslenska listasögu jafnframt því að efla rannsóknarhlutverk safnsins og samstarf við Háskóla Íslands um rannsóknir á fræðasviði þess, jafnt innan fræðasamfélagsins og til almennings.