Ólöf K. Sigurðardóttir tók í dag við sem safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Hafþór Yngvason og Ólöf K. Sigurðardóttir

Ólöf K. Sigurðardóttir tók við formlega sem safnstjóri Listasafns Reykjavíkur í dag af Hafþóri Yngvasyni sem gegnt hefur stöðunni síðustu tíu ár. Hafþór afhenti henni við það tækifæri lykla af safngeymslum listasafnsins.  

Frá árinu 2008 gegndi Ólöf stöðu forstöðumanns Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar þar sem hún var listrænn stjórnandi og bar ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi safnsins svo sem fræðsludagskrá, tónleikum og öðrum menningarviðburðum. Sem stjórnandi Hafnarborgar bar hún jafnframt ábyrgð á stefnumótun, stjórnun, fjármálum, rekstri og allri stjórnsýslu er varðar safnið.
Ólöf var um árabil deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur; bar ábyrgð á stefnumótun, skipulagi og framkvæmd fræðslustarfs safnsins, sat í sýningarnefnd safnsins og kom þannig að því að móta sýningarstefnu þess auk þess að vera sýningarstjóri á annan tug sýninga.

Ólöf K. Sigurðardóttir útskrifaðist frá School of the Art Institute of Chicago árið 2003 með meistaragráðu í stjórnun listasafna og sýningargerð (Arts Administration) en í því skarast þrjár fræðigreinar; menningarstjórnun, safnafræði og listfræði. Hún útskrifaðist úr málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989 og hefur jafnframt lagt stund á nám í listasögu og heimspeki á Ítalíu og við Háskóla Íslands.

Samhliða stjórnunarstörfum á sviði myndlistar og menningar hefur Ólöf sinnt kennslu og ýmsum trúnaðarstörfum innan myndlistarheimsins, háskólasamfélagsins og fyrir safnamenn. Þar á meðal má nefna formennsku Íslandsdeildar ICOM – Alþjóðaráðs safna, setu í Myndlistarráði og setu í stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar sem ber ábyrgð á vali fulltrúa og framkvæmd þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum.

Ráðningin er til fimm ára.