Ókeypis aðgangur á Kjarvalsstaði í tilefni af 130 ára afmæli Kjarvals

Í tilefni þess að 130 ár eru liðin frá fæðingu Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals býður Listasafn Reykjavíkur ókeypis aðgang að Kjarvalsstöðum fimmtudaginn 15. október. Boðið verður upp á hádegisleiðsögn um sýninguna Út á spássíuna en á henni má kynnast sjaldséðu efni frá meistaranum. Á sýningunni er sjónum beint að pári og rissi Kjarvals þar sem glittir í margar hliðar hans – rithöfundinn, skáldið, nýyrðasmiðinn, vininn, samferðamanninn, en umfram allt listamanninn sem alltaf kemur á óvart. Leiðsögin hefst kl. 12 og er í umsjón myndlistarmannsins Hugins Þórs Arasonar.

Þennan dag verður veitingasala Kjarvalsstaða, sem rekin er af Kaffi Flóru, með 2 fyrir 1 tilboð í hádeginu á súpu og brauði. Í tilefni dagsins er auk þess 20% afsláttur á Menningarkorti og árskorti Listasafns Reykjavíkur.

Þótt jafnan hafi verið talað um 15. október sem fæðingadag Kjarvals, segja sumir að hann hafi haldi því fram að vera fæddur þann 7. nóvember. Það gefast því tvö tækifæri til að fagna og þann 7. nóvember n.k. er áætluð útgáfa bókar um efni sýningarinnar í samstarfi við bókaútgáfuna Crymogeu.

Á Kjarvalsstöðum stendur einnig sýningin Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar þar sem sýnd eru  fjölbreytt verk tæplega þrjátíu listakvenna.

Opið er á Kjarvalsstöðum frá kl. 10–17.