Nýr starfsmaður: Verkefnastjóri miðlunar

Ariana Katrín

Ariana Katrín Katrínardóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri í deild sýninga og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur. Mun hún annast miðlun til barna, ungmenna og fjölskyldna, þar með talið móttöku skólahópa, samskipti við skóla, smiðjur og námskeiðshald. Ariana Katrín er með meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands þar sem hún lagði sérstaka áherslu á safnfræðslu. Lokaritgerð hennar var starfendarannsókn á listsmiðjum með grunnskólanemendum í safnaumhverfi út frá fræðum inngildingar og heildrænnar nálgunar á menntun, auk þróunar á stafrænu námsefni. Þá hefur Ariana Katrín numið myndlýsingar við Academy of Art University, San Francisco, listfræði við Háskóla Íslands og myndlist við Instituto Lorenzo de Medici, Flórens.

Ariana Katrín hefur fjölbreytta reynslu sem koma mun að góðum notum í nýju starfi í þjónustu við gesti Listasafns Reykjavíkur. Hún hefur starfað við sérkennslu hjá Brúarskóla, almenna kennslu í Flataskóla, sem leiðbeinandi á leikskólanum Grænuborg og deildarstjóri á leikskólanum Gullborg. Á þeim síðastnefnda stýrði hún jafnframt listasmiðju og hlaut skólinn í hennar tíð Menningarfána Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi menningarstarf. Í símenntun sem stendur leikskólakennurum til boða hefur hún kennt sköpun í leikskólastarfi. Þá hefur hún komið að ólíkum listsmiðjum og sérverkefnum á vegum Listasafns Íslands, Barnamenningarhátíðar, Rauða krossins o.fl. auk þess að hafa starfað sjálfstætt sem myndskreytir og hönnuður.

Listasafn Reykjavíkur býður Ariönu Katrínu velkomna til starfa!