Ný sýning í Hafnarhúsi – Hulda Rós Guðnadóttir: WERK – Labor Move

Ný sýning í Hafnarhúsi – Hulda Rós Guðnadóttir: WERK – Labor Move

Einkasýning Huldu Rósar Guðnadóttur, WERK – Labor Move, verður opin gestum í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi frá og með föstudeginum 5. febrúar. Á sýningunni beinir Hulda Rós sjónum að samfélagslegum viðfangsefnum í staðbundinni innsetningu. 

Innsetningin WERK – Labor Move er unnin sérstaklega fyrir salinn en Hafnarhúsið var upphaflega byggt sem vörugeymsluhús á hafnarbakkanum. 

Verkið samanstendur af þriggja rása kvikmyndaverkinu Labor Move og skúlptúrum sem tengjast því. Einnig er sýnd upptaka af samsetningu skúlptúranna í aðdraganda sýningarinnar.  

Hliðstæðum í verklegri vinnu sem unnin var á fyrri tíma í Hafnarhúsinu er varpað upp í samhengi við heldrunarferli (e. gentrification) hafnarsvæðisins. Hafnarhúsið er fyrsta byggingin við Reykjavíkurhöfn er fékk nýtt hlutverk sem bygging fyrir list- og menningarstarfsemi sem svo hefur orðið einkennandi fyrir svæðið, á sambærilegan hátt við þróun á hafnarsvæðum víða um heim. 

Kvikmyndaverkið Labor Move er upphafspunktur innsetningarinnar. Þar fremja löndunarmenn gjörning sérstaklega fyrir kvikmyndun, sem byggður er á þeim hreyfingum er þeir hafa tileinkað sér yfir lengri tíma við löndun kassa með frosnum fiski úr botni frystitogara og yfir á hafnarbakkann við Reykjavíkurhöfn.

Labor Move er listaverk í sjálfu sér en einnig heimild um 48 klukkustunda langan gjörning löndunarmannanna í viðurvist áhorfenda í sýningarrými í Leipzig í Þýskalandi. Tímalengd gjörningsins er sú sama og löndunarmenn hafa alla jafna til að landa úr frystitogara.

Löndunarmennirnir komu einnig fram í einrása kvikmyndaverki Huldu Rósar Keep Frozen sem frumsýnt var árið 2016. Keep Frozen verður sýnd í fjölnotasal Hafnarhússins á sýningartímabilinu.

Hulda Rós Guðnadóttir (f. 1973) er fædd í Reykjavík en býr nú í Berlín í Þýskalandi. Hún er með BA gráðu í mannfræði og MA gráðu í gagnvirkri hönnun. Hún brautskráðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. 

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.