Ný sýning í Hafnarhúsi – D42 Klængur Gunnarsson: Krókótt

Ný sýning í Hafnarhúsi – D42 Klængur Gunnarsson: Krókótt

Sýning Klængs Gunnarssonar, Krókótt, verður opin gestum í D-sal Hafnarhússins frá og með fimmtudeginum 28. janúar 2021. Vegna samkomutakmarkana verður ekki um hefðbundna sýningaropnun að ræða. Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi er opið alla daga vikunnar frá kl. 10-17 og til kl. 22 á fimmtudögum. Fimmtudagurinn 28. janúar er Fimmtudagurinn langi, en þá er frítt inn í safnið frá kl. 17 og þá er einnig opið á Kjarvalsstöðum til kl. 22. 

Klængur Gunnarsson er 42. listamaðurinn til að sýna í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal. Klængur er fæddur árið 1985 í Reykjavík en býr og starfar í Gautaborg í Svíþjóð. Hann nam myndlist við Listaháskóla Íslands, við ljósmyndadeild Hochschule für Grafik und Buchkunst í Leipzig – Þýskalandi og stundaði framhaldsnám í Akademin Valand í Gautaborg í Svíþjóð þaðan sem hann útskrifaðist árið 2019. 

Með samsnúningi af heimildagerð og skáldskap, reynir Klængur að ná fram hlykkjóttu sjónarhorni á hversdagslega atburði og athafnir. Þaðan vill hann vekja upp spurningar hjá áhorfendum sem snúa meðal annars að mikilvægi þess að staldra við í hringrás daglegs lífs. Dagleg skrásetning hversdagsleikans í nánasta umhverfi leiðir af sér frekari úrvinnslu þar sem listamaðurinn endurgerir raunverulega atburði eða setur þá á svið með skáldlegum hætti. Þessi skrásetning fer fram með ýmsum hætti, til dæmis með ljósmyndun eða textagerð, en úrvinnsla fer fram í gegnum kvikmyndaverk og innsetningar.  
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Sýningastjóri er Edda Halldórsdóttir.