Möskvi nýr gjörningur frá Gjörningaklúbbnum í Perlufesti í Hljómskálagarðinum

Gjörningaklúbburinn

Gjörningaklúbburinn í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir gjörningi með þátttöku almennings, í  höggmyndagarðinum Perlufesti í Hljómskálagarðinum þann 19. júní kl. 12 á eins árs afmæli höggmyndagarðsins og 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Gjörningurinn hefur hlotið nafnið Möskvi. Í Möskva verður kíkt ofan í jarðlög kvennasögunar og perlur hennar dregnar fram í dagsljósið.

Möskvi er að hluta til byggður á þátttöku áhorfenda, en þátttaka áhorfenda hefur áður verið mikilvægur hluti gjörninga Gjörningaklúbbsins, nú síðast á Listasafni Íslands og í Kunsthistorisches Museum í Vínarborg.

Gjörningurinn hefst kl. 12 og tekur a.m.k. klukkutíma en þátttakendur/áhorfendur geta komið og farið að vild, sumir verið allan tímann á meðan aðrir staldra stutt við.

Gjörningurinn fer fram utandyra og er áhorfendum bent á að klæða sig eftir veðri.

Möskvi

Það sem að grafið var niður er grafið upp.
Forviða uppgötvun fortíðar.

Hugurinn hefur áhrif á efnið og efnið á hugann.
Í lofti læðist andi,
Augnablik verður saga.

Það er erótísk virkni í því sem kemur inn.
Það er erótísk virkni í því sem kemur út.
 
Það eru þrír heimar.
Kynin skapa heiminn.
Einn + Einn = Þrír
 
Það er erótísk virkni í sköpun.
Framtíð skóp.
Hver?
Möskvi sigtar tímann.

Gjörningaklúbburinn: Eirún, Jóní og Sigrún, 2015
 
Gjörningaklúbburinn: Eirún Sigurðardóttir (1971), Jóní Jónsdóttir (1972) og Sigrún Hrólfsdóttir (1973) eru myndlistarkonur sem hafa starfað saman frá 1996.www.ilc.is