Menningarnótt: Pop-up kaffihús, draugalegar ritsmiðjur, tónleikar og skemmtidagskrá Kunstschlager

Listasafn Reykjavíkur býður borgarbúum upp á fjölbreytta dagskrá í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum á Menningarnótt laugardaginn 22. ágúst. Ókeypis er á alla viðburði safnsins og allir eru velkomnir.

Pop-up kaffihús í porti Hafnarhússins
Á Menningarnótt verður porti Hafnarhússins breytt í spennandi og öðruvísi kaffihús með girnilegum veitingum frá Kaffitár og Flórunni, enn fremur verður boðið uppá lifandi tónlist fram á kvöld.  Í Hafnarhúsi standa yfir fjölbreyttar sýningar á verkum Magnúsar Sigurðarsonar, Kathyar Clark, Errós og Richards Serra. 
Boðið verður upp á leiðsögn um sýningu Serra kl. 14 og gengið verður um verk listamannsins Áfanga í Viðey kl. 15.30. 
Kunstschlager stendur fyrir uppákomum frá kl. 15, en hópurinn tók við D-sal Hafnarhússins í sumar og hefur staðið fyrir fjölbreyttri dagskrá á safninu síðustu mánuði.
Opið er í Hafnarhúsi frá kl. 10-23.

Börnin í fyrirrúmi á Kjarvalsstöðum
Á Kjarvalsstöðum verður boðið upp á dagskrá fyrir börn á öllum aldri. Tónagull heldur tónleika fyrir 1-3 ára börn kl 15-16 þar sem sungnar verða þekktar perlur og barnagælur sem lengi hafa lifað með þjóðinni. Einnig verður boðið upp á draugasögusmiðju fyrir börn kl. 16 á öllum aldri í Hugmyndasmiðjunni. 
Á Kjarvalsstöðum standa yfir viðamiklar sýningar á verkum Kjarvals, Júlíönnu Sveinsdóttur og Ruth Smith.
Opið er á Kjarvalsstöðum frá kl. 10-20.

DAGSKRÁ

Kjarvalsstaðir

kl. 15-16
Vísnagull: Tónleikar fyrir börn í fylgd með fullorðnum
Tónleikar fyrir 1-3 ára börn þar sem sungnar verða þekktar perlur og barnagælur sem lengi hafa lifað með þjóðinni. Gestum tónleikanna býðst að taka undir og syngja, klappa, hreyfa sig eða leika á hristur og bjöllur. Hljóðfæraleikarar og kennarar Tónagulls virkja ungbörn og fullorðna til þátttöku. 

kl. 16-19
Kjarvalsstaðir í skjóli nætur: Skapandi ritsmiðja fyrir börn á öllum aldri
Hvað ætli gerist þegar dyrunum að Kjarvalsstöðum er skellt í lás á kvöldin? Hvað leynist í skúmaskotum safnsins? Stíga persónur út úr málverkum sínum eða er vofa Kjarvals kannski á svæðinu? Á Menningarnótt fer fram draugasögusmiðja fyrir krakka á öllum aldri í Hugmyndasmiðjunni. Ritsmiðjan verður með því fyrirkomulagi að þátttakendur geta komið og farið að vild og sótt sér innblástur í safnið sjálft við gerð stuttra draugasagna. Leiðbeinandi er Markús Már Efraím, ritstjóri hrollvekjubókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er.
Í september, október og nóvember verða haldnar fleiri ritsmiðjur undir stjórn Markúsar Más, en þær verða auglýstar síðar.

Hafnarhús

kl. 14 og 15.30
Leiðsögn um Áfanga Richards Serra
Leiðsögn um sýningu Richards Serra í Hafnarhúsi kl. 14 og leiðsögn um verk hans Áfanga í Viðey kl. 15.30. Ferjusiglingar til Viðeyjar eru frá Ægisgarði kl. 14.50.  Gjald í siglinguna er kr. 1.100 fyrir fullorðna og kr. 550 fyrir börn á aldrinum 7–15 ára.

kl. 13–23
Pop-up kaffihús í portinu
Á Menningarnótt verður porti Hafnarhússins breytt í spennandi og öðruvísi kaffihús með girnilegum veitingum frá Kaffitár og Flórunni, enn fremur verður boðið uppá lifandi tónlist fram eftir kvöldi.  

kl. 15–23
Kunstschlager
Kunstschlager- hópurinn stendur fyrir ýmsum uppákomum frá kl. 17, en hópurinn tók við D-sal Hafnarhússins í sumar og hefur staðið fyrir fjölbreyttri dagskrá á safninu síðustu mánuði.