Meira en 3000 gestir hafa séð nýopnaðar sýningar á verkum Yoko Ono og Erró í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi

Yoko Ono málar málverk í Hafnarhúsi.

Húsfyllir og ríflega það var við opnun sýninganna YOKO ONO: EN SAGA ENN... og Erró: Stríð og friður í Hafnarhúsinu síðastliðið föstudagskvöld. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, opnaði sýningarnar og safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, afhenti myndlistarmanninum Hildigunni Birgisdóttur viðurkenningu og styrk úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur.

Gestir Hafnarhússins nutu þess greinilega að fá að taka þátt í gerð verka Yoko Ono og var glatt á hjalla.

Hápunktur kvöldsins var án efa þegar listakonan Yoko Ono kom í safnið. Hún gekk inn í salinn ásamt fríðu föruneyti og dvaldi lengi við að mála verkið „Málverk til að bæta litum við“ með borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni.