Listhneigð Ásmundar Sveinssonar – Síðustu sýningardagar

Sýningunni Listhneigð Ásmundar Sveinssonar lýkur í Ásmundarsafni sunnudaginn 4. október. Meðal verka eru höggmyndir sem Ásmundur Sveinsson myndhöggvari (1893–1982) gerði sem nemandi við sænsku ríkisakademíuna. Síðar komu stórbrotin meistaraverk sem lofsyngja íslenska alþýðu, sagnir og náttúru og loks er í safninu fjöldi abstraktverka sem listamaðurinn vann á síðustu áratugum ævi sinnar. Ásmundur Sveinsson var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru og bókmenntir, sem og til þjóðarinnar. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem oft má lesa úr íslenskri náttúru. En þó myndefni Ásmundar hafi fyrst og fremst verið af þjóðlegum toga, tileinkaði hann sér engu að síður meginstrauma alþjóðlegrar listsköpunar eins og ekkert stæði honum nær og gaf henni um leið íslenskt yfirbragð – íslenskt inntak.

Ný sýning, Geimþrá, opnar svo í Ásmundarsafni þann 17. október klukkan 16.

Breytingar verða á opnunartíma Ásmundarsafn frá og með 1. október en þá er safnið opið frá klukkan 13–17.