Listaverk vikunnr: Útlagar

Listaverk vikunnr: Útlagar

Þriðja listaverk vikunnar er Útlagar eftir Einar Jónsson við Hólavallakirkjugarð.

Einar Jónsson myndhöggvari var einn þeirra listamanna sem í byrjun 20. aldar lögðu grunn að nútímamyndlist hér á landi og sá fyrsti sem gerði höggmyndalist að aðalstarfi.

Með sýningu á höggmyndinni Útlagar (1898-1901) á Charlottenborgarsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 haslaði Einar sér völl sem myndhöggvari. Myndefnið sótti hann í útilegumannasögur úr flokki íslenskra þjóðsagna.

Verkið sýnir karlmann sem ber líflausa konu á bakinu og barn á handlegg og er áhersla lögð á þreytulegt göngulag mannsins og sorgmætt andlit.

Formrænt séð er verkið natúralískt þar sem lögð er áhersla á að gera öllum atriðum nákvæm skil. Í heild kallar það fram tilfinningaleg viðbrögð áhorfandans og má túlka sem táknmynd einsemdar og útskúfunar þess sem dæmdur hefur verið.