Listaverk vikunnar: Streymi tímans

Streymi tímans eftir Sólveigu Aðalsteinsdóttur frá 2012.

Listaverk vikunnar er Streymi tímans eftir Sólveigu Aðalsteinsdóttur frá 2012. Verkið er staðsett í Litluhlíð í Öskjuhlíð.

Verkið er óvenjulegt umhverfisverk sem felst í því einu að lyfta hulunni af náttúrusögu staðarins, Litluhlíð í Öskjuhlíð. Fyrir óralöngu huldi ísaldarjökull þetta svæði en tók síðan að hopa fyrir um tólf þúsund árum og er nú horfinn með öllu. Þegar fargi jökulsins létti af landinu tók það að rísa og með tímanum sneri jarðvegur, dýr og gróður aftur. Þá fór þetta holt, eins og önnur svæði sem jökullinn yfirgaf, að gróa upp þar til ekkert var eftir til minningar um jökulinn nema einstök hvalbök, en svo kallast jökulsorfnar klappir sem skjóta kryppunni upp úr möl og gróðurþekju eins og hvalir á sundi. Listamaðurinn bætti engu við á staðnum og gerði engar breytingar á klöppunum heldur lét sér nægja að afhjúpa þær. Nú þegar gróðurhulunni hefur að nokkru leyti verið svipt af holtinu má sjá merki þess hvernig jökullinn braut sér leið, muldi björg, slípaði klappir og risti í þær rákir með möl og villugrjóti og þessar rákir marka stefnuna á för hans til norðvesturs.

Við útilistaverk Sólveigar má sjá fjallahringinn án þess að færa sig um set. Þetta er einn fárra staða í Reykjavík þar sem slíkt er hægt og þar er kjörið næði til að skoða stjörnur og norðurljós, íhuga tímans þunga nið og síkvikt lifandi land okkar. Í Litluhlíð glímir Sólveig við það að skrásetja stað og stund. Tími og taktur hins hversdagslega lífs, þau viðfangsefni eru listamanninum jafnan hugleikin og þau knýr hún áfram með látlausum aðferðum.

Sólveig Aðalsteinsdóttir lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og framhaldsnámi í New York og Hollandi. Viðfangsefni Sólveigar eru gjarnan nærtæk og endurspegla hugleiðingar um tímann og efnið, söguna og minnið sem felst í efninu. Í skúlptúrum, teikningum sem og í ljósmyndum eru könnuð þau mörk sem felast í snertingu við efni og umbreytingu þess í myndverk. 

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.