Listaverk vikunnar: Sólfar

Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason frá 1986. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Listaverk vikunnar er Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason frá 1986. Verkið er staðsett á við Sæbraut.

Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 efndu íbúasamtök Vesturbæjar til samkeppni um útilistaverk. Sólfar Jóns Gunnarsvarð fyrir valinu og var frummyndin, lítill álskúlptúr gefin Reykjavíkurborg til stækkunar. Sólfarið var sett niður við Sæbraut í fullri stærð og afhjúpað á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 1990. Ári áður féll listamaðurinn frá, langt fyrir aldur fram, og náði því aldrei að njóta verksins í endanlegri mynd.

Sólfarið er óður til sólarinnar og felur í sér fyrirheit um ónumið land,  leit, framþróun og frelsi. Það er draumbátur sem felur í sér von og birtu.

Jón Gunnar Árnason (1931-1989) var vélsmiður að mennt en gerðist myndlistarmaður seint á sjötta áratugnum. Hann var einn af stofnendum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, SÚM-hópsins og Nýlistasafnsins í Reykjavík. Listferill Jón Gunnars er fjölbreyttur og var hann óhræddur við að fara nýjar leiðir í listsköpun sinni. Hann vann verk gjarnan í málma og vísaði ýmist í sagnir fortíðar eða kosmískar kenningar. Nokkur verka hans standa í borgarlandslaginu og er þar þekktast Sólfar við Sæbraut.  

Árið 2019 er ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.