Listaverk vikunnar: Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955.

Verk vikunnar er Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.

Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið tengist ef til vill óbeint minningu tveggja íslenskra kvenna, Hallveigar Fróðadóttur og Auðar djúpúðgu. Verkið vísar einnig til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.

Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga. 

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.