Listaverk vikunnar: Gríma

Gríma eftir Sigurjón Ólafsson frá 1947/1989.

Listaverk vikunnar er Gríma eftir Sigurjón Ólafsson frá 1947/1989. Verkið er staðsett við Borgarleikhúsið.

Sigurjón (1908-1982) var einn af brautryðjendum abstraktlistar á Íslandi. Hann hafði mikið dálæti á sterku myndmáli fornra þjóða: Etrúska, Egypta, Maya og Inka og ekki síst Grikkja á arkaíska tímabilinu svonefnda. Í upphafi 20. aldar leituðu margir listamenn fanga í list fornra þjóða og varð gríman mjög algengt mótíf í verkum margra sem kenndir hafa verið við módernisma allt fram yfir miðja 20. öld.

Í grímunni sá fólk leið til að víkja frá eftirlíkingu náttúrunnar og lýsa í staðinn tilfinningum og innri veruleika í verkum sínum. Gríman er ævafornt fyrirbæri og hefur verið notuð víða um heim í trúariðkun og til að ná sambandi við yfirnáttúruleg öfl. Nægir hér að nefna þjóðflokka í Afríku og inúíta á Grænlandi og í Alaska. Gríman er einnig verkfæri leikara og tvær grímur eru táknmynd leiklistar. Stækkuð afsteypa af Grímunni stendur við Borgarleikhúsið í Reykjavík.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.