Listaverk vikunnar: Geirfugl

Geirfugl eftir Ólöfu Nordal frá 1998.

Listaverk vikunnar er Geirfugl eftir Ólöfu Nordal frá 1998. Verkið er staðsett við Skerjafjörð. Yfirlitssýning á verkum Ólafar Nordal, Úngl, verður opnuð laugardaginn 19. október kl. 16.00 á Kjarvalsstöðum.

Geirfugl Ólafar er úr áli og er eftirlíking hins útdauða geirfugls. Verkið stendur á hnullungi úti fyrir fjörunni og vísar til Eldeyjar þar sem síðustu tveir geirfuglarnir á Íslandi eru taldir haf verið drepnir árið 1844. Íslendingar drápu parið fyrir erlendan safnara sem bauð háar upphæðir.

Geirfugl Ólafar stendur á skeri í Skerjafirðinum og var upphaflega komið þar fyrir sem hluta af afmælissamsýningunni Strandlengjan sem Myndhöggvarafélag Reykjavíkur stóð fyrir árið 1998. Reykjavíkurborg festi kaup á verkinu árið 2000 og var verkinu þá komið fyrir á ný á sama stað og stendur þar enn.

Á bak við höggmyndina Geirfugl býr margþætt merking sem sýnir skoðun Ólafar á þjóðarvitund Íslendinga og þjóðararfleiðinni. Geirfugl Ólafar í Skerjafirðinum horfir til Eldeyjar og bendir því áhorfandanum á vettvang „glæpsins“. Hann er ennframur steyptur úr áli, þeim málmi sem Íslendingar hafa fórnað miklum náttúruauðlindum til þess að framleiða. 

Ólöf Nordal (1961) leitast við í verkum sínum að kanna og rannsaka byggingarefni goðsagna, hún leitar uppi það sem fellur utan hins hefðbundna og verður þannig uppspretta safna og trúar. Verk Ólafar varpa iðulega ljósi á málefni líðandi stundar um leið og þau vísa bæði fram og aftur í tíma.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.